Ísland og skuldastaða landsins er umfjöllunarefni greinar sem birtist í New York Times í gær. Þar er haft eftir Simon Johnson, hagfræðingi sem áður starfaði hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (IMF), að Ísland sé ríkt land sem hafi hegðað sér á ófyrirleitinn hátt. Með því hafi landið aðstoðað við að koma á óstöðugleika í fjármálakerfi heimsins.
Kemur fram í greininni að í kjölfar hrunsins hafi Ísland neyðst til þess að leita til IMF og nú sé deilt um það á Íslandi hvernig greiða eigi skuldir landsins án þess að tapa sjálfstæði sínu.
Johnson segir að geti verið sársaukafullt að þurfa að herða sultarólina sem blasir við Íslendingum en ekki sé hægt að kenna IMF þar um.
Greiða á atkvæði um Icesave-samkomulagið á Alþingi í næstu viku og samkvæmt greininni er ekki samstaða meðal ríkisstjórnarflokkanna þar um. Rætt er við Ögmund Jónasson, heilbrigðisráðherra, sem segir að um árás á sjálfstæði Íslendinga sé að ræða og minni á nýlendutíma. Hann bendir á að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hafi brugðist öðruvísi við þegar bandaríska fjármálafyrirtækið Lehman Brothers féll í haust.
Sjá greinina í heild