Jón Ásgeir Jóhannesson hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir að öll viðskipti milli Baugs Group og fjárfestingarfélagsins Gaums hafi verið á eðlilegu verði. Er yfirlýsingin send út í tilefni af frétt Morgunblaðsins í dag um skíðaskála Gaums í Courchevel í Frakklandi. Kaupin á skálanum voru fjármögnuð með láni frá Glitni, en skuldir Baugs við bankann námu 42 milljörðum króna þegar félagið fór í þrot.
„Í tilefni af fréttaflutningi Morgunblaðsins frá því í morgun varðandi hugsanlega riftun þrotabús Baugs Group hf. m.a. á „stórum skíðaskála í Frakklandi“ vill Jón Ásgeir Jóhannesson taka eftirfarandi fram:
Öll viðskipti milli Baugs Group hf. og Fjárfestingarfélagsins Gaums ehf. fyrir gjaldþrot Baugs Group hf. voru á eðlilegu verði, sem staðfest var af óháðum aðila.
Varðandi skíðaskálann sérstaklega þá var hann ekki fjármagnaður af Baugi Group hf. Þb. Baugs Group hf. á því ekkert tilkall til skálans og hefur skiptastjóri þrotabúsins staðfest það við mig munnlega í morgun. Hann staðfesti jafnframt að ummæli hans í Morgunblaðinu í dag um söluverðmæti skálans hefðu verið mistúlkuð.
Í frétt Morgunblaðsins er vísað til tölvupósts milli mín og lögmanns míns. Þær tölur sem koma fram í honum eru ekki réttar.
Morgunblaðinu hefði verið í lófa lagið að fá staðfest að enginn skíðaskáli í Frakklandi á þessu svæði er metinn á 36 milljónir evra. Tilgreindar fjárhæðir í tölvupóstinum standast því ekki og einsýnt að fiktað hefur verið póstinn. Morgunblaðið hefur ítrekað hótað að birta umræddan tölvupóst sem er stolinn og skrumskældur. Blaðamaður blaðsins hefur hringt í undirritaðan kófdrukkinn og hótað birtingu póstsins auk þess sem reynt hefur verið að kúga út úr mér fé gegn því að sleppt yrði að birta póstinn," að því er segir í yfirlýsingu frá Jóni Ásgeiri.
Aths. ritstj.
„Morgunblaðið telur umræddan tölvupóst áreiðanlega heimild og veit ekki til þess að átt hafi verið við tölur í honum.
„Hótanir" Morgunblaðsins og hringingar frá drukknum blaðamanni vegna þessa máls eru hugarburður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Sama á við ef Jón Ásgeir gefur í skyn að Morgunblaðið hafi reynt að kúga út úr honum fé. Skiptastjóri þrotabús Baugs hefur enga athugasemd gert við það sem eftir honum er haft í frétt blaðsins og staðfesti raunar í samtali við blaðið að rétt væri eftir honum haft."