Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, segir á heimasíðu sinni í dag að aflétta verði bankaleynd af öllum fjármálastofnunum, ekki bara Kaupþingi, heldur líka Landsbankanum og sparisjóðunum.
„Hver á(tti) peningana sem fjármálamenn bröskuðu með (og braska enn?) með í bönkum og fjármálastofnunum? Við. Almenningur. Nú er komið á daginn hve ótrúlega ósvífnir þeir voru í viðskiptum sín í milli í harðsvíraðri samtryggingu og krossfjárfestingum; hvernig þeir skákuðu milljarðatugum til og frá á taflborði eiginhagsmuna; og hvernig þeir síðan undir það síðasta settu fjármuni í ríkisskuldabréf þegar þeim þótti hætta á að peningarnir væru ekki nægilega tryggir í bönkunum sem þeim - „kjölfestufjárfestunum" - höfðu verið fengnir í hendur af þáverandi stjórnvöldum. Hvers vegna ríkisskuldabréfum? Jú, ríkisskuldabréfin eru þar tryggilegast á ábyrgð okkar, almennings," segir Ögmundur.
Hann segir að slagurinn um bankaleynd snúist nú um rétt almennings til að sjá hvernig farið var með hann.
„Þarf að segja meira? Þetta er siðleysi af hæstu gráðu. Ekki er nóg með að búið sé að setja bankana á hausinn heldur þjóðfélagið allt - og samt leyfa fjármálamenn sér að tala um það sem mannréttindi að sveipa gjörðir sínar leyndarhjúp."