Kaupþing var einn margra tuga alþjóðlegra banka sem lánuðu Exista án veðtrygginga, að sögn Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings.
Þetta kemur fram í grein eftir Sigurð í Fréttablaðinu í dag. Sigurður segir að Exista sé og hafi verið fjármagnað líkt og fjármálafyrirtæki, þar sem almenna reglan sé sú að lánveitingar séu án sérstakra veðtrygginga. Sigurður er þar að vísa til þess að Exista hafði aðgang að fjármögnun líkt og að um banka væri að ræða, ólíkt því sem gilti um t.d fjárfestingarfélög.
Ósáttur við lekann
Sigurður lýsir áhyggjum sínum með opinberun skýrslu um útlán Kaupþings. Hann segir að það sé honum mikið umhugsunarefni hvernig þeir sem láku skýrslunni hafi komist yfir hana. Einungis örfáir einstaklingar innan bankans hafi haft skýrsluna í rafrænu formi. Ljóst sé því að skýrslan hafi verið sótt inn í gagnagrunna bankans eftir fall hans.
Sigurður segir jafnframt að skýrslan sé bókuð í fundargerð stjórnar Kaupþings og þar með aðgengileg FME, auk þess sem skýrslan hafi verið aðgengileg öllum þeim aðilum öðrum sem hafi með höndum rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna. Er Sigurður þar væntanlega að vísa til embættis sérstaks saksóknara og rannsóknarnefndar Alþingis.
Sigurður segir að bankaleynd hafi ekki verið hugsuð fyrir bankana heldur fyrir viðskiptavinina. Hann segir að stjórnmálamenn verði að gera sér grein fyrir því að afnám bankaleyndar þýði vitaskuld ekkert annað en fjöldaflótta íslenskra viðskiptavina til erlendra fjármálafyrirtækja um leið og og færi gefist, með tilheyrandi og viðvarandi skaða fyrir íslenskt efnahagslíf.
Þess má geta að Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, lagði fram á ríkisstjórnarfundi í gær minnisblað um breytingar á bankaleynd og aukna upplýsingaskyldu bankastofnana.
Exista á nú í viðræðum við á fjórða tug erlendra banka sem lánuðu félaginu. Oft var um stórar lánveitingar að ræða, án veðtrygginga, með sérstökum gjaldfellingarheimildum (e. covenants). Slík ákvæði voru algeng í lánasamningum fjármálafyrirtækja. Meðal banka sem Exista á í viðræðum við eru stórir evrópskir bankar eins og Deutsche Bank, Royal Bank of Scotland og Barclays.