Þýski bankinn Deutsche bank er sagður hafna þeim skýringum Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, að lánveitingar til traustra viðskiptavina til að kaupa skuldatryggingar á bankann hafi verið gert að tillögu Deutsche.
Þetta kemur fram í breska dagblaðinu Guardian. Í frétt blaðsins, sem vitnar til umfjöllunar Morgunblaðsins um að mál vegna lánveitinga Kaupþings til félags í eigu Kevin Stanford hafi verið sent til embættis sérstaks saksóknara, er vitnað í bréf Sigurðar Einarssonar, sem hann sendi vinum og vandamönnum í janúar á þessu ári.
„Byggðust á trausti og hollustu“
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær víkur Sigurður í bréfinu að kaupum á flóknum afleiðum á skuldatryggingar sumarið 2008, á sama tíma og verðmyndum fyrir skuldatryggingar bankans var Kaupþingi mjög óhagstæð, en skuldatryggingaálag á bankinn hafði hækkað mikið.
Í bréfinu segir Sigurður. „Þær hækkanir líkt og aðrar voru tilefni neikvæðra frétta um stöðu bankans jafnt innanlands sem utan. Að tillögu Deutsche Bank var ákveðið að láta reyna á hvað myndi gerast ef bankinn myndi sjálfur fara að kaupa þessar tryggingar. Það var hins vegar ekki einfalt mál, þar sem bankinn gat ekki keypt tryggingar á sjálfan sig. Því var gripið til þess ráðs að fá viðskiptavini okkar sem við treystum vel og höfðum átt langvarandi samskipti við sem byggðust á trausti og hollustu til að eiga þessi viðskipti fyrir hönd bankans. Vitanlega hefðum við aldrei átt þessi viðskipti nema vegna þessara sérstöku aðstæðna. Viðskiptin voru gerð með hagsmuni bankans að leiðarljósi og í fullu samræmi við lög og reglur.“
Kevin Stanford er meðal þeirra traustu viðskiptavina sem Sigurður vitnar til í bréfinu, en félag hans Trenvis LTD, fékk sem kunnugt er 41,7 milljóna evra lán (7,5 milljarða króna) til að kaupa á afleiðum tengdum skuldatryggingum á Kaupþing sjálft. Trenvis var stofnað af Kaupþingi í ágúst 2008, síðar skráð á Stanford og eru lánveitingar til þess nú til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara vegna gruns um markaðsmisnotkun, en Kaupþingi banka var óheimilt að standa í kaupum á skuldatryggingum á sjálfan sig.