Fyrrum stjórnendur Hróarskeldubanka ákærðir

Danski seðlabankinn.
Danski seðlabankinn.

Skilanefnd Hróarskeldubanka hefur tilkynnt að hún muni óska eftir að lögð verði fram ákæra á fyrrum bankastórann Niels Valentin Hansen. Þá verði einnig höfðað skaðabótamál á hendur Hansen. Bankinn sem var tíundi stærsti banki Danmerkur var tekinn yfir af danska seðlabankanum í kjölfar lausafjárvandræða. Danska fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt að hafin sé vinna við gerð ákæru.

Samkvæmt Copenhagen Post verða fyrrum stjórn bankans og endurskoðunarfyrirtækið Ernst og Young einnig ákærð fyrir það sem er kallað „gagnrýniverðar aðgerðir"

Samkvæmt skýrslu sem gerð var um fall Hróarskeldubanka, ber Hansen höfuðábyrgð á falli hans. Sjálfur hafnar Hansen, sem var bankastjóri frá 1978-2007 allri ábyrgð á vandræðum bankans. Í skýrslunni segir að hann hafi ekki „sinnt skyldum sínum sem forstjóri.“

Hansen hefur einnig verið ákærður fyrir þá ákvörðun sína að reyna að auka eigið fé Hróarskeldubanka með því að gefa út hlutabréf og kaupa síðan 22% af eigin hlutum. Er hámarksrefsing við slíku átján mánuðir.

Er tekið fram í skýrslunni að stjórnin hafi brugðist eftirlitsskyldum sínum varðandi framkvæmdastjórnina og vanrækt að skoða möguleg áhrif af áhættusömustu útlánum bankans.

Hvað Ernst og Young varðar hafi fyrirtækið „"ekki ástundað góðar reikningsskilavenjur“ við uppgjör bankans fyrir ársskýrslur sem lagðar voru fram fyrir árið 2005 og 2006. Endurskoðendur fyrirtækisins hafi samþykkt eigin endurskoðun bankans fyrir þessi ár og síðar hafi komið í ljós að ársskýrslurnar voru ófullnægjandi.

Fyrir fall Hróarskeldubanka í ágúst á síðasta ári hafði bankinn skilað af sér uppgjöri fyrir annan ársfjórðung með tapi upp á 5,1 milljarð danskra króna og útistandandi lán upp á 3,6 milljarða í vanskilum. Samkvæmt skýrslunni hefði stjórnin líklega ekki getað komið í veg fyrir fallið en væntanlega getað dregið úr tapi bankans.


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK