Ársæll og Sigurjón starfa áfram

Ársæll Hafsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Landsbankans, og Sigurjón Geirsson sem var yfir innri endurskoðun Landsbankans, hafa verið ráðnir sem ráðgjafar skilanefndar Landsbankans en Fjármálaeftirlitið vék þeim nýverið úr skilanefndinni frá og með 14. ágúst þar sem störfum skilanefndarinnar væri að ljúka.

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndarinnar, staðfesti þetta við vef Viðskiptablaðsins.

Í samtali við mbl.is segir Páll að með ráðningu þeirra geti viðræður hafist að nýju en þegar upplýst var um að þeim hafi verið gert að láta af störfum þá gengu erlendu kröfuhafarnir frá borði. Hann segir að kröfuhafarnir hafi neitað að taka þátt í viðræðum fyrr en lausn fengist á málinu. 

Aðalmálið sé að viðræðurnar geti hafist á ný enda mikið hagsmunamál að ljúka viðræðum við erlendu kröfuhafana. Lausnin felst í því að þeir verða áfram skilanefndinni til ráðgjafar þó þeir verði ekki áfram í skilanefndinni, segir Páll og bætir því við að með þessu hafi tekist að koma kröfuhöfunum aftur að borðinu eftir að hafa rokið til útlanda eftir að tilkynnt var um ákvörðun FME að víkja þeim úr skilanefndinni.

Traust og trúnaður ríkti milli kröfuhafa og skilanefndar

Páll segir að viðræður hafi staðið yfir milli kröfuhafa og skilanefndar Landsbankans frá því í haust og aðilar hafi myndað traust og trúnað sín á milli.  „Þannig kom það spánskt fyrir sjónir að þegar farið var að sjá fyrir endann á samningunum þá væri allt í einu tveim af fjórum bara vikið frá í skilanefndinni. Mönnum sem þeir höfðu verið að semja við um þetta. Mönnum sem þeir treystu til þess og vissu að væru vel inni í málum," segir Páll. 

Hann segir að þetta hafi orðið til þess að kröfuhafarnir hafi hætt viðræðum og fóru í fússi frá Íslandi. „Síðan hafa þeir ekki komið að samningaborðinu".

„Þeir eru hinsvegar tilbúnir til að koma að samningaborðinu á ný þar sem Ársæll og Sigurjón hafa verið ráðnir sem ráðgjafar í samningaferlinu og munu áfram taka þátt í því fyrir hönd bankans," segir Páll.

Tveir eftir í skilanefndinni

Ársæll og Sigurjón verða á sambærilegum kjörum og aðrir sérfræðingar sem starfa fyrir skilanefndirnar, að sögn Páls en segist ekki vita nákvæmlega hvaða kjör það eru. 

Eftir þessar breytingar verða tveir í skilanefnd Landsbankans, þeir Lárentínus Kristjánsson og Einar Jónsson sem hafa setið í skilanefnd Landsbankans frá upphafi. Fyrr í sumar hætti Lárus Finnbogason í nefndinni en nú láta eins og áður sagði Ársæll og Sigurjón af störfum sem skilanefndarmenn en verða ráðgjafar nefndarinnar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK