Nýsi gert að greiða 10 milljónir króna í stjórnvaldssekt

Tónlistarhúsið við Austurhöfn en Nýsir kom m.a. að byggingu þess
Tónlistarhúsið við Austurhöfn en Nýsir kom m.a. að byggingu þess mbl.is

Fjármálaeftirlitið hefur gert Nýsi hf. að greiða stjórnvaldssekt upp á tíu milljónir króna fyrir brot á lögum um verðbréfaviðskipti. Um þrjú brot er að ræða og í ljósi alvarleika þeirra var ekki talið rétt að ljúka þeim með sátt heldur stjórnvaldssekt, að því er segir á vef FME.

Þann 14. janúar 2008 staðfesti Kauphöllin verðbréfalýsingu Nýsis hf. vegna víxils. Nýsir greindi ekki frá væntanlegri endurfjármögnun í verðbréfalýsingunni en í janúar 2008 lá fyrir að endurfjármagna þyrfti skammtímaskuldir félagsins. Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Nýsi hafi borið að upplýsa um slíkt þar sem endurfjármögnunin snerti fjárhag og framtíðarhorfur félagsins.

Þann 19. mars 2008 féllu skuldabréf/víxlar Nýsis í gjalddaga sem skráð voru í Kauphöllinni. Nýsir greindi ekki frá ofangreindu á skýran hátt fyrr en 18. júní 2008. Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Nýsir hefði brotið gegn lögum með því að tilkynna ekki um alvarlega stöðu sína þegar ljóst var að félagið gæti ekki staðið við greiðslu á afborgunum skuldabréfa og víxla sem féllu í gjalddaga 19. mars 2008.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar þann 2. apríl 2008 sem fylgdi ársreikningi Nýsis kom fram að félagið stæði frammi fyrir vanda vegna skammtímaskulda og að ef ekki tækist að vinna fram úr honum stæði félagið frammi fyrir bráðavanda. Fjármálaeftirlitið taldi þá tilkynningu ekki nægilega skýra, en ekki kom fram í henni að skuldabréf og víxlar félagsins hefðu fallið í gjalddaga.

Þann 1. apríl 2008 náði Nýsir samkomulagi við alla kröfuhafa um greiðslufrest skuldabréfa og víxla sem féllu í gjalddaga 19. mars 2008. Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Nýsir hefði brotið gegn lögum þar sem félagið birti ekki opinberlega þær upplýsingar.

Sýnir ítrekaða brotlega háttsemi félagsins

„Það var mat Fjármálaeftirlitsins að framangreind þrjú tilvik sýndu ítrekaða brotlega háttsemi félagsins á 6 mánaða tímabili. Í ljósi alvarleika brot var ekki talið rétt að ljúka máli með sátt, heldur stjórnvaldssekt. Við ákvörðun stjórnvaldssektar var litið til alvarleika brots, málsatvika og þess tíma sem brot stóð yfir. Með hliðsjón af framangreindu og stjórnvaldssektum í sambærilegum málum þótti hæfilegt að gera Nýsi hf. stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 10.000.000,-," að því er segir á vef FME.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK