„Breska viðskiptablaðið Financial Times fjallar í dag um Icesave-málið í leiðara og hvetur til þess, að Bretar og Hollendingar taki á sig aukinn hlut af þeim byrðum, sem því fylgja, en núverandi samningar geri ráð fyrir. Ella sé hætta á langvarandi stöðnun í íslensku efnahagslífi.
Blaðið segir að Bretar og Hollendingar hafi ekki reiknað með reiði íslenskra kjósenda þegar þeir gerðu samkomulagið við Íslendinga um Icesave-skuldbindingarnar og útlit sé fyrir að íslenska þingið felli samninginn.
„Þeir 3,3 milljarðar punda, sem stjórnvöld í Reykjavík féllust á að ábyrgjast, eru lág upphæð í augum flestra þjóða en hún svarar til yfir 10 þúsund punda (2,1 milljón króna) á hvern íbúa í þessu landi út við heimskautsbaug. Hin efnahagslega byrði - um það bil helmingur af árlegri landsframleiðslu - vegna bóta til erlendra sparifjáreigenda, er svipuð og kostnaður breska ríkisins vegna samdráttarins í Bretlandi sem þó er minni en á Íslandi," segir Financial Times.
Blaðið segir að sumir beri þetta saman við harðneskjulegar kröfur Versalasamningsins í garð Þjóðverja en heppilegri samanburður sé við skuldakreppu Latnesku-Ameríku árið 1982 þar sem ríki öxluðu gríðarlegar skuldir fyrirtækja. Í kjölfarið fylgdi áratugur efnahagsstöðnunar.
„Myndi nokkur hagnast á slíku? Íslenska þjóðin, sem þegar er reið Gordon Brown fyrir að beita hryðjuverkalögum til að frysta íslenskar eignir, myndi fjarlægjast. Stuðningur Íslendinga við aðild að Evrópusambandinu er þegar farinn að minnka. Hættan er, að Ísland, sem er bæði á hernaðarlega mikilvægum stað og býr yfir mikilvægum náttúruauðlindum, hrekist af leið í alþjóðamálum. Rússar gera sér án efa grein fyrir þessu enda urðu þeir fyrstir til að bjóða Íslendingum efnahagsaðstoð," segir FT.
Blaðið segir, að það sé einnig allra hagur að taka upp nána samvinnu við rannsókn á efnahagshruninu og endurheimt eigna. Hægt sé að kenna mörgum um hvernig fór. Auk íslenskra nútímavíkinga, sem reistu brothætt efnahagsveldi, þá hafi Íslendingar ítrekað kosið ríkisstjórnir, sem einsettu sér að auka frjálsræði í efnahagsmálum á sama tíma og eftirlitsstofnanir sváfu á verðinum. En ensk og hollensk stjórnvöld hefðu getað séð í hendi sér, að háir vextir Icesave-reikninganna hefðu ekki verið öruggari en geta Íslendinga til að ábyrgjast innlánin.
„Með því að jafna byrðarnar við að hreinsa til gæti nágrannakærleikur orðið ábatasamur," segir Financial Times.