Líklegt er að útbreidd verðtrygging dragi nokkuð úr virkni peningastefnunnar, vegna þess að hún stuðlar að því að lán séu veitt til mjög langs tíma og á föstum raunvöxtum. Kemur þetta m.a. fram í samantekt Seðlabankans um kosti og galla þess að breyta umgjörð peningastefnu.
Segir þar einnig að framkvæmd peningastefnu á grundvelli verðbólgumarkmiðs verði ávallt torveldari í mjög litlu og opnu hagkerfi eins og því íslenska. Ýmis rök bendi til þess að framtíðarhagsmunir landsins séu betur tryggðir með aðild að gjaldmiðlabandalagi. Þá bendi reynsla Íslands ekki til þess að fastgengisstefna af því tagi, sem hér var rekin áður en verðbólgumarkmiðið var tekið upp, sé vænleg til árangurs. Fljótandi gengi, aðild að gjaldmiðlabandalagi eða jafnvel einhliða upptaka annars gjaldmiðils virðist því vera þeir kostir sem komi til greina.