Einn af forustumönnum Miðflokksins í Noregi hefur lýst þeirri skoðun að Norðmenn eigi að veita Íslendingum mun meiri efnahagsaðstoð en þeir hafa gert til þessa og leita jafnframt eftir aukinni samvinnu við Íslendinga í atvinnumálum.
Per Olaf Lundteigen segir á bloggsíðu sinni, að Ísland hafi farið einna verst út úr fjármálakreppunni. Þar séu nú mikið atvinnuleysi og pólitísk upplausn ríki.
Lundteigen telur, að Norðmenn eigi að leita eftir nánari samvinnu við Íslendinga um iðnað og aðra atvinnustarfsemi. Hann nefnir einkum endurnýjanlega orku og lýsir þeirri sýn, að samvinna landanna á þessu sviði gæti valdi byltingu í umhverfisvænni stóriðju.
Hann segir, að Norðmenn eigi að veita Íslendingum allt að 100 milljörðum norskra króna, jafnvirði rúmlega 2000 milljarða íslenskra króna. Lánið eigi að bera 4% vexti og endurgreiðast á 20 árum en engar afborganir verði fimm fyrstu árin.