Þörf er á meira aðhaldi hjá hinu opinbera en spáð var í maí til að tryggja sjálfbærni opinberra fjármála, kemur þetta fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem birt voru í dag. Er Seðlabankinn nú svartsýnni en stjórnvöld um hvenær afgangur náist á rekstri ríkissjóðs. Ríkisstjórnin spáir því að því markmiði verði náð árið 2013, en Seðlabankinn telur að það náist ári síðar.
Í maíhefti Peningamála kom fram að nauðsynlegt væri að grípa til umfangsmikilla aðgerða til að draga úr þeim mikla halla, sem myndast hefði á rekstri hins opinbera. Í maí var gert ráð fyrir því að jafnvægi væri komið milli tekna og útgjalda hins opinbera með aðhaldsaðgerðum. Myndu þær aðgerðir koma nokkurn vegin koma jafnt niður á tekju- og gjaldahlið.
Forsendur hafa nú breyst þar sem nú er gert ráð fyrir því að hækkun skatttekna nái einnig til óbeinna skatta. Samsvari hún 0,4% af landsframleiðslu á næsta ári, 1,1% árið 2011, 1,0% árið 2012 og 0,6% árið 2013. Bætast þessar hækkanir við hækkun óbeinna skatta í júní og fyrirhugaða hækkun í haust.
Til að unnt verði að ná jöfnuði í rekstri hins opinbera þarf aðhald í rekstri á árunum 2009-2013 að vera samtals 200 milljarðar króna, sem er heldur meira aðhald en talið var þörf á í maí. Aðlögunarferillinn sé því orðinn framhlaðnari og muni vara lengur. Nemur munurinn um 10 milljörðum árið 2010 og um 50 milljörðum fyrir árin 2012 og 2013.