Lánveitingar Kaupþings til valinna viðskiptavina til að kaupa afleiður á skuldatryggingar bankans var nauðvörn bankans rétt fyrir hrun, að sögn heimildarmanna innan úr stjórnendateymi Kaupþings. Um var að ræða aðgerð sem misheppnaðist. Það hvarflaði ekki að stjórnendum Kaupþings að um væri að ræða viðskipti sem gætu flokkast undir markaðsmisnotkun.
Embætti sérstaks saksóknara hefur nú til rannsóknar stórar lánveitingar frá Kaupþingi til traustra viðskiptavina vikurnar fyrir fall bankans. Meðal annars eru lánveitingar til félags í eigu Skúla Þorvaldssonar, Holly Beach S.A, til rannsóknar vegna gruns um umboðssvik og lánveitingar til Trenvis Ltd. félags í eigu Kevin Stanford til rannsóknar vegna gruns um markaðsmisnotkun og brota gegn góðum viðskiptaháttum.
Verðmyndun með þessar skuldatryggingar var Kaupþingi mjög óhagstæð allt árið 2008, fyrir bankahrunið, en svokallað skuldatryggingarálag á bankann var mjög hátt á þessum tíma. Hátt skuldatryggingaálag var tilefni neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar um Kaupþing og reyndar alla íslensku bankana.
Markaður með skuldatryggingar er óregluvæddur (e. unregulated) og mjög ógagnsær. Mjög takmarkaður upplýsingar liggja í reynd fyrir. Fyrrverandi starfsmenn Kaupþings sem rætt var við segja m.a. að þetta sé meðal þess sem geri það að verkum að mjög erfitt verður að halda því fram að það sé ólöglegt fyrir banka að kaupa skuldatryggingar á sjálfan sig. Hins vegar þykir það ekki tilhýðilegt, auk þess að ef banki færi að kaupa skuldatryggingarnar sjálfur væri hann í reynd að ljóstra upp um eigin áhyggjur af stöðunni, þ.e. að verðmyndunin með skuldatryggingarnar væri honum óhagstæð. Sem er líklega ástæða þess að Kaupþing banki lánaði traustum viðskiptavinum sínum háar fjárhæðir til þess að kaupa þessar tryggingar í stað þess að gera það sjálfur.
Ítarlega er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.