Stjórn Northern Travel Holding hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, en NTH keypti meðal annars danska flugfélagið Sterling af FL Group á 20 milljarða króna í lok árs 2006.
Einu eignirnar sem eftir eru inni í NTH eru Sterling og annað dansk félag, Flyselskapet, sem bæði eru gjaldþrota. Allar aðrar eignir höfðu verið seldar til Fons, eignarhaldsfélags í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, og því eru ekkert nema skuldir eftir í NTH.
Fons hefur þegar verið tekið til gjaldþrotaskipta. Áður en það gerðist voru breska flugfélagið Astraeus, sem leigir út flugvélar, og Iceland Express seld frá Fons til eignarhaldsfélagsins Fengs á lágmarksverði. Eigandi Fengs er Pálmi Haraldsson. Færslan á Iceland Express milli félaga er til skoðunar hjá skiptastjóra þrotabús Fons.