Sjóðsstjóri hjá Landsvaka, sem var vikið tímabundið frá störfum vegna láns sem Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, fékk út á einkalífeyrissparnað sinn, er aftur kominn til starfa hjá bankanum. Segir í tilkynningu að ekki sé vitað til að neitt misjafnt hafi komið upp sem snúi að viðkomandi starfsmanni.
Um miðjan júní var sjóðstjóranum vikið tímabundið frá störfum í tengslum við mál sem vísað var til Fjármálaeftirlitsins þar sem á fjárvörslusafn í einkalífeyrissparnaði viðskiptavinar hefði verið keypt veðskuldarbréf, útgefið af sama viðskiptavini, að því er segir á vef Landsbankans en Landsvaki er dótturfélag bankans.
„Unnið hefur verið að ítarlegri skoðun á málinu bæði innan og utan bankans og er ekki vitað til að neitt misjafnt hafi komið upp sem snýr að viðkomandi starfsmanni. Landsbankinn telur að viðkomandi starfsmaður hafi í einu og öllu fylgt þeim reglum og verklagi sem krafist var og því hefur hann nú hafið störf á ný," samkvæmt tilkynningu frá Landsvaka.
Í frétt Morgunblaðsins frá 15. júní sl. kom fram að Sigurjón hafi fengið tvö lán hjá séreignarlífeyrissjóði í vörslu bankans, svonefndum Fjárvörslureikningi 3. Um er að ræða svonefnd kúlulán, sem eru með einum gjalddaga í lok lánstímans, eftir 20 ár. Vextir eru 3,5%. Annað lánið er 40 milljónir króna og hitt 30 milljónir, eða samtals 70 milljónir.
Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, sagði aftur á móti í samtali við Morgunblaðið um miðjan júní að lífeyrissjóður geti ekki verið í einkaeigu.