Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki, sem tekinn var yfir af Fjármálaeftirlitinu, hefur unnið að því að ná samkomulagi við kröfuhafa um áframhaldandi starfsemi. Í áætlunum sem liggja fyrir leggja stjórnendur Straums til að þeir fái að 2,7 milljarða króna í bónusgreiðslur til viðbótar við hefðbundin laun. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum getur þessi upphæð orðið 10,8 milljarðar króna. Um er að ræða ósamþykktar tillögur sem munu koma til kasta nýrrar stjórnar bankans að loknum nauðasamningsumleitunum. Kröfuhafar bankans munu koma til með að skipa stjórnina.
Bankanum verður skipt í tvennt
Að sögn Óttars Pálssonar, forstjóra Straums, hafa stjórnendur Straums lagt fram áætlanir um endurskipulagningu á bankanum sem fela það í sér að Straumi verði skipt í tvennt. Úr þeirri skiptingu kæmi annars vegar félag sem myndi halda utan um eignasafn Straums, hámarka virði eignanna og selja þær á löngum tíma. Væri eina hlutverk félagsins að tryggja eins góðar endurheimtur fyrir kröfuhafa og hugsast getur. Hitt félagið hefði með höndum fjárfestingarbankarekstur á Íslandi, fyrst og fremst miðlun og ráðgjöf.
Gert er að ráð fyrir að starfsmenn Straums verði 63 talsins og þar af muni 45 starfa við að hámarka verðmæti eignasafns bankans. Óttar segir að áætlanir Straums um endurheimtur kröfuhafa byggist á ákveðnum forsendum. Meðal annars að að komið verði á árangurstengdu launakerfi fyrir starfsmenn við eignastýringu bankans. „Við erum hins vegar ekki að ætlast til þess að menn taki afstöðu til slíks hvatakerfis núna, enda hefur engin formleg tillaga um slíkt verið lögð fram,“ segir Óttar því það verði í verkahring nýrrar stjórnar bankans að taka afstöðu til slíks hvatakerfis.
Launin stór kostnaðarliður
Óttar segir að ekki megi aðeins horfa til þess hversu mikið fæst fyrir eignir Straums heldur einnig hvað muni kosta að reka félagið. „Í því eru laun mjög stór kostnaðarliður. Jafnframt höfum við gert ráð fyrir því í okkar áætlanagerð að eigendur félagsins, sem eru kröfuhafar þess, muni vilja tryggja að hagsmunir stjórnenda félagsins og þeirra fari saman. Starfsmenn almennt hafi nægilegan hvata til þess að hámarka söluandvirði eigna til góðs fyrir alla,“ segir Óttar.
Kröfuhafarnir hafa val á milli þess að samþykkja nauðasamninga Straums eða setja félagið í þrot. Hugmyndafræðin á bakvið hvatakerfið miðar að því að sex prósent umfram það sem fæst upp í almennar ótryggðar kröfur í gjaldþroti muni fara í hvatagreiðslur til starfsmanna. Með því telja stjórnendur Straums að verið sé að tengja saman hagsmuni starfsmanna og kröfuhafa félagsins til framtíðar, að sögn Óttars. Hann segir að rétt sé að árétta að um sé að ræða endurheimt að loknum greiðslum til tryggðra kröfuhafa, t.d íslenska ríkisins. Það muni því aldrei koma til þessara greiðslna nema að loknum greiðslum til þeirra sem eigi tryggðar kröfur.
Sérfræðingar í Danmörku og Bretlandi
Óttar segir að þeir starfsmenn sem fái það hlutverk að hámarka virði eigna Straums eftir nauðasamninga verði sérfræðingar sem staðsettir verða í Bretlandi og Danmörku. Óttar segir að tryggja þurfi áframhaldandi störf hæfra starfsmanna í þessum löndum.
Kröfuhafar munu ekki taka afstöðu til hvatakerfis heldur verður það alfarið í höndum nýrrar stjórnar Straums, að lokinni endurskipulagningu, að leggja mat á það hvað sé rétt og eðlilegt í þeim efnum.
Stjórnendur Straums telja að þessar tillögur um hvatakerfi séu mjög skynsamlegar og eðlilegar. Samkvæmt upplýsingum mbl.is var óháð matsfyrirtæki, Mercer, fengið til að leggja mat á þessar tillögur og samkvæmt mati þess voru þær í samræmi við það sem tíðkast á þessum markaði.
Af almennum kröfuhöfum Straums eru fyrst og fremst erlend fjármálafyrirtæki, þ.e lánveitendur á millibankamarkaði. Þeirra á meðal eru Deutsche Bank, Commerzbank, Raiffeisen Zentralbank Österreich (RZB) o.fl.