Nýja Kaupþingi hefur borist á annan tug umsókna um svonefnda skuldaaðlögun, sem bankinn kynnti fyrir um þremur vikum síðan. „Auk þess hefur talsvert verið um fyrirspurnir um þessa leið,“ segir Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi Nýja Kaupþings.
Skuldaaðlögun er liður í aðstoð Nýja Kaupþings við íbúðaeigendur í greiðsluerfiðleikum og á jafnt við um verðtryggð lán í íslenskum krónum og erlend lán, sem viðskiptavinir bankans hafa fengið hjá honum.
Að því er fram kemur á vef Nýja Kaupþings er með skuldaaðlögun boðið upp á það að laga lán viðkomandi viðskiptavinar bankans að greiðslugetunni. Skuldaaðlögun felur í sér að láni viðskiptavinarins er breytt, að undangengnu greiðslumati, í nýtt, verðtryggt langtímalán með breytilegum vöxtum. Nýja lánið getur verið til allt að 40 ára og skal það að lágmarki vera 80% af markaðsvirði fasteignar.
Með skuldaaðlögun gerist það að eftirstöðvum upphaflega lánsins, þ.e. mismuninum á upphaflega láninu og nýja láninu, er breytt í biðlán. Það lán er án vaxta og verðbóta og með einum gjalddaga eftir þrjú ár. Að þeim tíma liðnum verður staðan metin að nýju.