Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþing, bað starfsmenn bankans afsökunar í Kastljósviðtali í gær og sagði marga í fjárhagsvandræðum vegna falls bankans. Kaupréttarfyrirkomulag Kaupþings hefði verið vitlaust upp byggt. Hreiðar var sjálfur með sín hlutabréf í Kaupþingi í sérstöku félagi og ber því takmarkaða persónulega ábyrgð.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins óskuðu fleiri starfsmenn um að setja bréf sín í sérstakt félag. Til þess þurfti að breyta ákvæðum lánasamninga, því bankinn lánaði til sjálfra hlutabréfakaupanna. Því var ítrekað neitað af framkvæmdastjórn bankans.
Á meðan var Hreiðar Már, Ingvar Vilhjálmsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Kaupþing, Kristján Arason, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs, og fleiri með sín bréf í sérstökum einkahlutafélögum.Tilgangurinn með slíkri eignafærslu í einkahlutafélög er oftast skattalegt hagræði og til að takmarka persónulegar ábyrgðir.
Kaupréttirnir fólust í einföldu máli í því að starfsmenn gerðu samning til nokkurra ára, fengu að kaupa bréf á ákveðnu gengi og bankinn lánaði starfsfólkinu fyrir kaupunum. Ef gengi bréfanna hækkaði, sem varð raunin, gat myndast verulegur gengishagnaður. Oft fylgdi líka réttur til að selja bréfin á ákveðnu gengi til að tryggja að starfsmaðurinn tapaði ekki á viðskiptunum.
Afnámu sölurétt 2005
Árið 2005 ákvað stjórn Kaupþings að afnema söluréttinn þar sem hann hafði neikvæð áhrif á eigið fé bankans. Þess í stað samþykkti stjórnin á haustmánuðum að draga úr persónulegri áhættu starfsmanna af lántökunum, sem þeir lögðu út í til að kaupa bréfin.
Þegar bankinn féll í október 2008 námu lán vegna hlutabréfakaupa starfsmanna 53 milljörðum króna. Stjórn Kaupþings ákvað 25. september að fella niður allar persónulegar ábyrgðir starfsmanna sinna á þessum lánum. Hópur þeirra fékk skjalfesta yfirlýsingu frá Hreiðari Má þess efnis. Um þessa niðurfellingu á persónulegum ábyrgðum hefur mikið verið deilt.
Þeir starfsmenn Kaupþings, sem bera persónulega ábyrgð á háum lánum til hlutabréfakaupa í bankanum, eru nú í miklum fjárhagsvandræðum eins og Hreiðar Már lýsti í Kastljósviðtalinu í gær. Þeim var neitað um að færa bréfin í sérstakt félag og takmarka þannig ábyrgð sína. Þeim var líka neitað að selja bréfin því það myndi senda neikvæð skilaboð á markaðinn, sem var mjög næmur á slík skilaboð allt árið 2008.
Ólíkt í Glitni og Landsbankanum
Hreiðar nefndi að þetta hefði verið annað fyrirkomulag en í Glitni og Landsbankanum. Starfsfólk Glitnis fékk að stofna félög utan um hlutabréfaeign sína í bankanum og persónuleg fjárhagsleg ábyrgð þeirra því takmörkuð.
Í Landsbankanum voru stofnuð sérstök félög, sem vistuð voru í löndum þar sem skattalöggjöf er hagstæð fjárfestum. Félögin keyptu hlutabréf í bankanum þegar kaupréttur starfsmanns var samþykktur. Kaupin fjármagnaði ekki Landsbankinn sjálfur heldur þriðji aðili, eins og Kaupþing og Glitnir. Þannig varði bankinn sig fyrir hækkun bréfanna þangað til starfsmaður nýtti sér kaupréttinn.
Kauprétturinn var skráður á nafn hvers starfsmanns og ekki var hægt að framselja réttinn til félags í hans eigu. Hagnaður af samningnum, sem var munurinn á kaupréttargengi og markaðsgengi, var skattlagður sem tekjur. Starfsmenn greiddu því um 38% tekjuskatt af hagnaðinum og til viðbótar greiddi Landsbankinn lögbundin tryggingargjöld.