Eik fasteignafélag skuldaði Kaupþingi 86,2 milljónir evra, eða 15,8 milljarða króna, samkvæmt lánayfirliti Kaupþings frá 25. september í fyrra. Garðar Friðjónsson er forstjóri Eikar en eiginkona hans, Auður Finnbogadóttir, situr í bankastjórn Nýja Kaupþings þar sem lán til félagsins eru staðsett.
Eik fasteignafélag býður litlum og meðalstórum fyrirtækjum að kaupa og leigja til baka fasteignir þeirra. Auk þess er félagið umsvifamikið í almennri útleigu á atvinnuhúsnæði.
Hefur vikið sæti á stjórnarfundum
Samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur Auður Finnbogadóttir alltaf vikið af fundum bankastjórnar Nýja Kaupþings þegar málefni Eikar og annarra fasteignafélaga hafa komið þar til umræðu. Auður vildi ekki tjá sig um málið þegar blaðamaður náði tali af henni í dag.
Auður átti þátt í því að stofna MP Verðbréf á sínum tíma og var framkvæmdastjóri þess til ársins 2003. Frá þeim tíma hefur hún starfað sjálfstætt við ráðgjafa- og stjórnarstörf.
Ekki náðist í Huldu Dóru Styrmisdóttur, formann bankastjórnar Nýja Kaupþings, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.