Heildarskuldir íslenskra skúffufyrirtækja, þ.e. óvirkra fyrirtækja með enga eiginlega starfsemi, voru í árslok 2007 ríflega eitt þúsund milljarðar króna. Til samanburðar voru skuldir allra fyrirtækja í byggingariðnaði árið 2007 um 142 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í úttekt Creditinfo á íslenskum fyrirtækjum sem unnin var fyrir Morgunblaðið.
Fjöldi óvirkra fyrirtækja á Íslandi í dag er 14.912 talsins sem þýðir að 47 prósent skráðra fyrirtækja eru í raun skúffufyrirtæki. Tveir þriðju hlutar skúffufyrirtækjanna eru þá skúffufyrirtæki í orðsins fyllstu merkingu, þ.e. um er að ræða kennitölur fyrirtækja í engri starfsemi sem hvíla í skúffum eigenda sinna óháð upphaflegum tilgangi þeirra.
Þriðjungur skúffufyrirtækjanna virðist hafa þann eina tilgang að vera einhvers konar fjármögnunarfyrirtæki eigenda sinna þar sem skuldsetning er mikil en rekstrarstarfsemi hefur aldrei verið til staðar. Í flestum tilvikum þýðir þetta að hlutafélagið er í ábyrgð vegna skulda fyrirtækisins en ekki einstaklingur. Dæmi um slík félög eru einkahlutafélög starfsmanna Glitnis sem fengu há lán til hlutabréfakaupa og eignarhaldsfélög sem notuð voru til að fjárfesta í hlutabréfum, oft með lánum gegn veðum í hlutabréfunum sjálfum.
Embætti ríkisskattstjóra hefur bent á að fjöldi eignarhaldsfélaga á Íslandi sé ekki eðlilegur. Ekki er loku fyrir það skotið að endurskoða þurfi löggjöf um starfsumhverfi þessara fyrirtækja.
Í hnotskurn: 47 prósent skráðra fyrirtækja í Hlutafélagaskrá eru í raun skúffufyrirtæki · Þriðjungur þeirra virðist hafa þann eina tilgang að vera fjármögnunarfyrirtæki eigenda sinna.