Heildarskuldbindingar Baugs við innlenda kröfuhafa voru 1.100 milljónir punda í janúar á þessu ári, eða um 233 milljarðar króna á núverandi gengi. Stærstu innlendu kröfuhafar félagsins eru föllnu bankarnir þrír, Landsbankinn, Glitnir og Kaupþing. Kröfulýsingarfrestur rann út á miðnætti hinn 19. ágúst síðastliðinn, en heildarfjárhæð lýstra krafna liggur ekki fyrir.
Fimmtíu milljarðar í formi óöruggra veðkrafna
Óöruggar veðkröfur íslenskra lánveitenda á Baug Group námu 293,7 milljónum punda í janúar á þessu ári, samkvæmt Project Sunrise, sérstakri skýrslu um endurreisn Baugs. Hér er um að ræða lán annarra en föllnu bankanna þriggja og á þáverandi gengi námu þau tæplega fimmtíu milljörðum króna. Um er að ræða Straum, Sparisjóðabankann, Byr, SPRON, VBS, Stoðir, Fons, Landic Property o.fl. Meira en þriðjungur hinna óöruggu veðkrafna var vegna skulda Baugs við tengda aðila eins og Landic Property, Fons og Stoðir.
Allar erlendar eignir Baugs eru meira og minna veðsettar. Með greiðslustöðvun BG Holding í febrúar á þessu ári tók PricewaterhouseCoopers (PwC) fyrir hönd skilanefndar Landsbankans yfir stjórn verðmætustu eigna félagsins í Bretlandi. Þeirra á meðal voru Iceland Food-verslanakeðjan, Hamleys-leikfangaverslanirnar og stórverslunin House of Fraser. Áður hafði Straumur fjárfestingarbanki yfirtekið dönsku stórverslanirnar Magasin Du Nord og Illum.
Tony Lomas, framkvæmdastjóri hjá PwC, hefur sagt að það sé ekki ætlunin að halda verslanakeðjum Baugs til eilífðar. Þær verði seldar um leið og markaðsaðstæður batni enda vilji kröfuhafar fá fé í hendur fremur en eignarhluti.
Eignarhald Baugs á verðmætum eignum í Bretlandi var orðið lítið undir það síðasta. Sem dæmi má nefna að Landsbankinn átti 52,9 prósent hlut í Iceland Food, meðan Baugur Group átti aðeins 13,7 prósent. Þrotabú Baugs hefur tekið yfir þennan eignarhlut.
Endanleg kröfuhafaskrá Baugs mun liggja fyrir hinn 8. september næstkomandi. Viku síðar verður síðan skiptafundur, eða hinn 15. september.