„Fátt er brýnna um þessar mundir en að efla og styrkja hæfni atvinnulífsins til þess að framleiða og selja vörur og þjónustu til þess að afla gjaldeyris.“ Þetta segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í frétt á heimasíðu samtakanna.
Hann segir augljóst að þörf sé á erlendu fjármagni í formi lána en ekki síður í formi eigin fjár í atvinnurekstri. „Það er áhyggjuefni hve okkur virðast mislagðar hendur við að laða hingað erlenda fjárfesta,“ segir hann, og bætir við að stundum virðist sem stefnu en ekki síður vilja skorti í þessum efnum. Nefnir hann fyrirhugaða fjárfestingu Magma í innlendum orkuiðnaði í þessum efnum. „Það er með ólíkindum að á síðustu stigum þess máls skuli rokið upp til handa og fóta til þess að ríkið kaupi hlutinn í stað hinna erlendu fjárfesta,“ segir Jón Steindór.