Vantrú á krónunni skýrir helst hve veik hún er

Þótt krónan hafi styrkst lítillega í gær hefur hún að undanförnu verið veikari en hún hefur áður verið á árinu. Gengisvísitalan stendur nú í rúmum 237 stigum. Vonir voru bundnar við að gjaldeyrishöft, sem Seðlabankinn kom á í nóvember í fyrra, myndu leiða til styrkingar krónunnar. Það hefur ekki gengið eftir. Meðal þeirra skýringa sem sérfræðingar nefna sem ástæður þessa eru mikil vantrú á krónunni og reyndar á efnahagslífinu í heild.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir að helsta skýringin á því hvað krónan hefur veikst mikið að undanförnu sé vantrú á henni og vantrú á að hún muni styrkjast á næstunni.

„Þetta gerir það m.a. að verkum að þeir sem eru að afla útflutningstekna eru ekki að öllu leyti að skila þeim gjaldeyri sem þeir fá,“ segir Ingólfur. „Vantrúin snýr reyndar jafnt að Íslendingum sem útlendingum. Erlendir fjárfestar hafa klárlega verið að leita með vaxtagreiðslur sem þeir fá af innlendum bréfum út fyrir landsteinana. Staða þeirra í krónum hefur lækkað nokkuð undanfarið. Eignir þeirra í ríkisbréfum hafa minnkað, en ekki liggja fyrir upplýsingar um hve mikið af þeim hefur farið í innlán.“ Hann segir að vantrúin á krónunni sé auðvitað afleiðing af fjármálakreppunni og hvernig gengið hefur að byggja upp eftir hrunið. Þá hafi óvissan, um það hvaða afleiðingar fyrirhuguð fleyting krónunnar muni hafa, áhrif á gengið.

Tekur mörg ár

Yngi Örn Kristinsson, forstöðumaður hagfræðideildar NBI (Nýja Landsbankans), segir að þó svo að afgangur á vöruskiptum sé að jafnaði um 7 til 8 milljarðar króna á mánuði, þá séu mjög háar vaxtagreiðslur stöðugt að fara út úr landinu. Þá bætist við að leki sé í gjaldeyrishöftunum. Þetta hvort tveggja setji þrýsting á krónuna og sé væntanlega meginskýringin á því hve veik hún er og snúi því jafnt að útlendingum og Íslendingum.

„Það mun taka mörg ár að ná aftur að skapa trúverðugleika á efnahagslífið, sem er forsenda þess að gengið styrkist. Í því felst að endurreisa þarf fjármálakerfið og tryggja jafnvægi í ríkisfjármálunum. Fólk er enn hrætt við stöðuna vegna óvissunnar. Það hefur mikil áhrif.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK