Stjórnarformaður Exista, Lýður Guðmundsson, sagði á aðalfundi félagsins áðan að það áfall sem Exista varð fyrir þegar fjórðungshlutur félagsins í Kaupþingi varð nánast að engu á einni nóttu hafi verið langmesta höggið sem bankahrunið olli einum aðila. Gríðarlegir fjármunir hafi tapast á falli Kaupþings.
Mikil ábyrgð hjá stjórnvöldum
Lýður segir að stjórnvöld og stofnanir þeirra með Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið í broddi fylkingar beri mikla ábyrgð á því hve efnahagskreppan skall á þjóðinni af miklum þunga.
„Þau bera líka ábyrgð á því hvernig haldið hefur verið á málum af hálfu hins opinbera eftir hrunið og þeim verðmætum sem þar hefur verið kastað á glæ. Verði ríkisbankarnir þess valdir að ekki verði samið við Exista verður tap samfélagsins sett á reikning stjórnvalda en ekki félagsins," sagði Lýður og vísaði þar til þess að á grundvelli íslenskra neyðarlaga er félaginu óheimilt að stefna bönkunum og sækja rétt sinn gagnvart þeim fyrir dómstólum.
Vonast eftir samkomulagið við skilanefnd Glitnis
„Þess vegna hefur tekist samkomulag við Kaupþing um að bankinn stefni Exista vegna þessara ágreiningsefna. Vonast er til þess að svipað samkomulag náist við skilanefnd Glitnis á næstunni en að mati stjórnenda Exista neitar skilanefndin að virða skýlausan rétt félagsins til skuldajöfnunar. Niðurstaða þessara málaferla mun ráða miklu um stöðu félagsins. Aðrir óvissuþættir, t.d. vegna meðhöndlunar á umtalsverðum innstæðum félagsins í Kaupþingi og um leið stöðu félagsins gagnvart öðrum kröfuhöfum, geta einnig skipt miklu máli," segir Lýður.
Bað hluthafa afsökunar
Í ræðu hans á fundinum kom fram, að stjórn félagsins muni óska eftir því að fá að fresta birtingu ársreiknings enn um sinn.
Í lok ræðu sinnar bað Lýður hluthafa afsökunar og sagði að í uppbyggingu Exista hafi margt verið gert vel en mistök hafi líka verið gerð og á þeim vilji hann biðja hluthafa félagsins afsökunar.
„Ljóst er að mikið tap þeirra verður ekki umflúið og væntanlega mun ekkert eitt félag, utan bankanna, tapa meiri verðmætum á bankahruninu en Exista. Í þeim efnum erum við ekki eingöngu þolendur eða fórnarlömb heldur einnig gerendur. Ég vík mér ekki undan ábyrgð á því sem betur hefði mátt gera í fjárfestingum félagsins og áhrifum þess á rekstur dóttur- og hlutdeildarfélaga. Ég er hins vegar hreykinn af þeirri staðreynd að félagið búi yfir nægjanlegum styrk til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar þó á löngum tíma sé."
Lýður segir að engum geti dulist að hin gjörbreytta staða Exista á sér einvörðungu rætur í hinu alþjóðlega bankahruni og falli Kaupþings, sem aldrei hefði að hans viti orðið ef bankinn hefði haft sambærilegt bakland og svo margir bankar í álíka stöðu erlendis bjuggu við.
„Exista var gífurlega sterkt félag fjárhagslega og nú þegar hefur komið í ljós að Kaupþing var það á margan hátt líka.
Héðan af fæst þeirri spurningu væntanlega aldrei svarað hvort bankinn hefði staðið af sér afleiðingar alþjóðlega bankahrunsins ef bresk stjórnvöld hefðu ekki ráðist inn í Kaupþing Singer & Friedlander og neytt bankann í greiðslustöðvun. Þar með var grundvelli kippt undan starfsemi móðurfélagsins á Íslandi og fall bankans varð ekki umflúið.
Þrátt fyrir að Kaupþingssamstæðan, sem var með yfir 50 milljarða evra á efnahagsreikningi sínum, hafi fallið virðast góðar líkur á að bankinn greiði kröfuhöfum allt að 80% allra skuldbindinga sinna. Tölurnar segja allt sem segja þarf um stærð bankans og fjárhagslegan styrk," að sögn Lýðs.
Stærstu mistökin að hraða ekki flutningi bankans
Hann tók undir orð Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings nýverið í fjölmiðlum um að staða Kaupþings Singer & Friedlander í Lundúnum hafi verið fjárhagslega sterkari heldur en margra þeirra banka sem bresk stjórnvöld hafi komið til hjálpar.
Lýður segir að Exista hafi haft af því áhyggjur um skeið fyrir hrunið að bankland Kaupþings í íslensku samfélagi stæði vart undir frekari vexti bankans. Því hafi spurningin um flutning höfuðstöðva hans út fyrir landsteina verið orðin áleitin enda umsvifin erlendis margfald meiri en á Íslandi.
„Stærstu mistök okkar sem stjórnuðum Exista á undanförnum árum voru að leggja ekki okkar að mörkum til þess að hraða umræðum og ákvarðanatöku innan veggja bankans um þetta mál. Ég er sannfærður um að með höfuðstöðvar sínar erlendis hefði Kaupþing haldið velli í hinni alþjóðlegu bankakreppu. Ekki þarf að orðlengja um þá gjörólíku stöðu sem Exista byggi við í dag ef tekist hefði að verja bankann falli," sagði Lýður.