Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, sagði í dag á fundi með sendiherrum Frakklands í París að hann ætlaði að hvetja til þess að þak verði sett á bónusa í fjármálageiranum. Ætlar hann að taka málið upp á fundi leiðtoga tuttugu helstu iðnríkja heims, G-20 í næsta mánuði í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Þar mun hann einnig kynna áætlanir um hertar reglur í viðskiptalífinu.
Franskir bankar samþykktu í gær að taka upp afkastatengdar launagreiðslur. Franska bankasambandið tilkynnti um breytingarnar eftir fund með Sarkozy. Samkvæmt því verða bónusar minnkaðir umtalsvert í ár.
Sarkozy kallaði yfirmenn bankanna á sinn fund í gær sem svar við reiði almennings við fréttum um að BNP-Paribas, sem á síðasta ári fékk 5,1 milljarð evra í ríkislán, væri að undirbúa að borga út einn milljarð til miðlara.