Gengi krónunnar styrkist

mbl.is/Júlíus

Gengi krónunnar hefur styrkst umtalsvert frá því í gær. Gengisvísitalan hefur þannig lækkað um 3% frá því í gærmorgun, þar af um 1,2% í dag. Gengi evru er nú um 180 krónur, gengi dals um 125 krónur.

Fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka, að Seðlabankinn hafi gefið tóninn bæði í gær og í morgun með inngripum á markaði en líklegt sé að frekari gjaldeyrissala á markaði eigi einnig þátt í svo ríflegri styrkingu krónunnar.

Íslandsbanki segir, að ekki sé hægt að útiloka að tilkoma nýs manns til starfa í brú Seðlabankans eigi einhvern þátt í auknum umsvifum hans á gjaldeyrismarkaði nú. Már Guðmundsson, nýr seðlabankastjóri, hafi nýlega viðrað í fjölmiðlum þá skoðun sína að virkari þátttaka Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undanfarin ár hefði verið heppileg, og að skynsamlegt gæti verið fyrir bankann að beita gjaldeyrisforðanum sem eins konar sveiflujafnara fyrir gengi krónu með umfangsmiklum gjaldeyriskaupum á hágengistímum og tilsvarandi sölu þegar gengið stæði veikt.

Fram kemur í Morgunkorni, að gengisþróun krónunnar hafi verið önnur á svonefndum aflandsmarkaði en á millibankamarkaði hér á landi. Þannig hafi gengi evru lækkað á aflandsmarkaði eftir miðjan ágústmánuð úr 220 krónum í 212,5 krónur á sama tíma og gengið á millibankamarkaði hækkaði úr 181 krónur í 184 krónur. Með því minnkaði munur hérlends gengis og aflandsgengis úr 22% í 15,5% á tímabilinu.

Ekki verður hins vegar séð að viðskipti hafi átt sér stað í kerfi Reuters frá því krónan fór að styrkjast að nýju hér á landi í gærmorgun og hefur munur innlends gengis og aflandsgengis aukist að nýju miðað við það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK