Sex starfsmönnum hefur verið sagt upp hjá Byr sparisjóði, en uppsagnirnar tóku gildi nú um mánaðarmótin. Að sögn mannauðsstjóra Byrs tengjast uppsagnirnar breyttri verkefnastöðu hjá fyrirtækinu.
Herdís Pála Pálsdóttir, mannauðsstjóri og yfirmaður rekstrar hjá Byr sparisjóði, segir í samtali við mbl.is að tryggja verði að fyrirtækið sé rétt mannað miðað við þau verkefni sem liggi fyrir á hverjum tíma. Ávallt sé erfitt að sjá á eftir góðu fólki.
Aðspurð segir Herdís að þeir sem láti nú af störfum hafi starfað á ýmsum deildum fyrirtækisins. Bæði framlínustarfsmenn og starfsmenn í bakvinnslu.
Hún bendir á að frá því í maí sl. hafi sex manns verið ráðnir til fyrirtækisins. Þó hafi enginn verði ráðinn til fyrirtækisins um þessi mánaðamót. Því sé ekki um eiginlega fækkun að ræða.
Um 220 manns starfa nú hjá Byr.