Ísland taki upp evru

Reuters

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, mælir með því í nýrri skýrslu um íslensk efnahagsmál, að Ísland reyni að komast inn á evrusvæðið en slíkt krefjist aðildar að Evrópusambandinu. Með þessu móti yrði Ísland þátttakandi í evrusamstarfinu sem og nyti þess stöðugleika, sem því fylgir. 

OECD segir, að trúverðugleiki íslenskrar peningamálastefnu hafi beðið mikinn hnekki vegna fjármálakreppunnar og raunar hafi verðbólgusveiflur grafið undan þeim trúverðugleika áður en kreppan skall á.   

Það muni taka tíma að byggja trúverðugleika upp að nýju og takist það verði einnig erfitt að viðhalda honum. Þetta muni hafa það í för með sér að áhættuálag á krónueignir verði áfram hátt. 

Í ljósi þessa sé heppilegast fyrir Ísland að sækja eftir aðild að evrusvæðinu. Það muni hafa í för með sér að það dregur úr sveiflum og vextir lækka sem aftur dragi úr vaxtakostnaði íslenska ríkisins og einnig kostnaði atvinnulífsins.   

Þá muni sameiginlegur gjaldmiðill styrkja viðskiptatengsl við önnur hagkerfi á evrusvæðinu og væntanlega auka samræmingu á því sviði. Á móti komi að Ísland geti ekki lengur beitt gengisbreytingum til að mæta skammtímasveiflum. Hins vegar ætti ekki að vera mikil þörf á slíku í ljósi þess að íslenska hagkerfið hafi mikla aðlögunarhæfni.

Skýrsla OECD 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK