Svein Harald Øygard, sem gegndi embætti seðlabankastjóra Íslands um hálfs árs skeið, segir í viðtali að möguleikar á verðmætasköpun séu ef til vill meiri á Íslandi en í nokkru öðru Evrópuríki.
„Það eru víða tækifæri til vaxtar í hlutfalli við stærð hagkerfisins. Fiskur, orka, ferðaþjónusta og tækniþekking eru allt mikilvægir hlutar þess grunns, sem efnahagur Íslands mun byggja á næstu árin. Útflutningurinn á fyrsta ársfjórðungi var 10% meiri en á sama tíma árið áður," segir Øygard í samtali við vefinn e24.no.
Øygard segir, að margt sé líkt með norsku bankakreppunni á 10. áratug síðustu aldar og þeirri íslensku. „En á Íslandi urðu bankakreppa, skuldakreppa, gjaldeyriskreppa og ríkisfjármálakreppa samtímis. Í Noregi urðu þessar kreppur á löngum tíma. Þá er kreppan á Íslandi mun stærri í hlutfalli við hagkerfið," segir Øygard, og bætir við að búið sé að vinna mikið starf varðandi endurskipulagningu á bankakerfinu, ríkisfjármálum og atvinnulífinu.
Øygard segist hafa notið mikillar gestrisni á Íslandi og hafa oft farið í útreiðartúra.