Landsframleiðsla er talin hafa dregist saman um 2% að raungildi frá 1. ársfjórðungi 2009 til 2. ársfjórðungs 2009. Sé miðað við sama ársfjórðung árið áður er landsframleiðslan talin hafa dregist saman um 6,5% á 2. ársfjórðungi.
Hagstofan birti í morgun tölur um landsframleiðslu og þar kemur einnig fram, að landsframleiðslan er talin hafa dregist saman um 5,5% að raungildi samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2008. Landsframleiðslan fyrstu sex mánuði ársins 2009 nemur 722 milljörðum króna borið saman við 691 milljarða króna á sama tímabili árið áður.
Þjóðarútgjöld drógust saman um 4,3% milli fyrsta og annars ársfjórðungs. Samneysla jókst um 0,5% en einkaneysla dróst saman um 1,2% og fjárfesting um 2,2%.
Á öðrum ársfjórðungi jókst útflutningur um 0,4% en innflutningur dróst saman um 4,4% miðað við ársfjórðunginn á undan. Á Íslandi, í Noregi, Evrópusambandinu í heild og Bandaríkjunum dróst landsframleiðslan saman á öðrum ársfjórðungi 2009. Hins vegar var 0,3% hagvöxtur var í Þýskalandi og Frakklandi og 0,9% vöxtur í Japan.