Greining Íslandsbanka segir, að tölur sem Hagstofan birti í morgun um landsframleiðslu á þessu ári bendi til þess, að samdrátturinn í ár verði öllu minni en fyrstu hagspár ársins hljóðuðu upp á. Ein af ástæðunum sé sú að landið flytji út hluta af banka- og gjaldeyriskreppunni.
Landsframleiðsla er talin hafa dregist saman um 2% að raungildi frá 1. ársfjórðungi 2009 til 2. ársfjórðungs 2009. Sé miðað við sama ársfjórðung árið áður er landsframleiðslan talin hafa dregist saman um 6,5% á 2. ársfjórðungi. Fjármálaráðuneytið spáði því í janúar að samdrátturinn í landsframleiðslu í ár yrði 9,6% og Seðlabankinn spáði 9,9% samdrætti. Greining Íslandsbanka segir nú líklegt, að niðurstaðan verði eitthvað í takti við nýjustu spá OECD fyrir Ísland sem spáir 7% samdrætti í ár.
Íslandsbanki segir, að ein af ástæðum þess að samdráttur landsframleiðslu sé ekki meiri hér en raun beri vitni, þrátt fyrir banka- og gjaldeyriskreppu, sé að landið flytji úr stóran hluta af þessari kreppu. Þannig komi um 46,9% samdráttur í fjárfestingum á 2. ársfjórðungi og 17,4% samdráttur í neyslu fram í um 34,8% samdrætti í innflutningi, sem svo aftur komi niður á eftirspurn og landsframleiðslu landa sem framleiða fjárfestingar- og neysluvörur til útflutnings og sérstaklega þann hluta sem er hvað háðastur sveiflum í tekjum líkt og Þýskaland og Japan.