Litháen, sem glímir við mikla fjármálakreppu heima fyrir, gæti hugsanlega tekið upp evru um miðjan næsta áratug, svo fremi að landið nái tökum á ríkisfjármálum sínum.
„Miðað við núverandi ástand þá ættum við að horfa til miðs næsta áratugar en allt veltur á því að dregið verði úr fjárlagahallanum,“ segir Günter Verheugen, sem fer með iðnaðar- og fyrirtækjamál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Hann segir Litháen á réttri leið til að geta tekið upp evruna sem gjaldmiðil en nákvæm tímasetning sé óljósari. Hann átti fund í Vilníus með Dainius Kreivys, efnahagsmálaráðherra Litháen.
Viðleitni Litháen til að taka upp evru í stað litas hefur lent í miklum mótbyr þegar kemur að því að uppfylla skilyrðin sem sett eru í Maastricht-sáttmála ESB í efnahags- og myntmálum. Litháen gekk í Evrópusambandið 2004 og stefndi að því að taka upp evruna árið 2007 en mistókst naumlega að halda verðbólgunni fyrir neðan þau mörk sem Maastricht-skilmálarnir kveða á um.
Auk verðbólgunnar snúa skilmálarnir að vaxtastigi, fjárlaghalla og skuldastöðu hins opinbera, svo og sjálfstæði seðlabankans í peningamálastjórnun. Yfirstandandi kreppa hefur hjálpað til að slá á verðbólguna, og glíman við fjárlagahallann hefur verið sett á oddinn.
Stjórnin sem mynduð er af miðju og hægriflokkum hefur skorið niður af miklum móð til að halda markaðri stefnu, m.a. með þeim rökum að upptaka evru myndi losa Litháen við kreppur í framtíðinni.
Andrius Kubilius, forsætisráðherra, hefur sagt að Litháen gæti farið í myntbreytinguna 2011 til 2012, en Dalia Grybauskaite, forseti - sem kjörinn var í maí eftir að hafa horfið frá sem fjárlagastjóri ESB til að snúa sér aftur að innanlandsstjórnmálum -telur árin 2013 til 2015 líklegri.
Verheugen sagðist í gær sjá merki um batnandi horfur í Litháen. „Við teljum báðir ástæðu til hæfilegrar bjartsýni um að landið hafi náð botninum og viðsnúningurinn sé að verða, “ sagði hann á fundi með blaðamönnum eftir fund með Grybauskaite forseta.