Velgengni Magma vekur athygli

Orkuver HS Orku við Svartsengi.
Orkuver HS Orku við Svartsengi. mbl.is/Brynjar Gauti

Velgengni kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy er farin að vekja mikla athygli þar í landi. Hlutabréf fyrirtækisins voru skráð í kauphöllinni í Toronto í júlí og hafa þau hækkað um 25% í verði síðan. Þá hefur Magma keypt stóran hlut í HS Orku á Íslandi.

Kanadíska blaðið Globe and Mail fjallar um Magma og Ross Beaty, forstjóra félagsins. Segir blaðið, að Beaty hafi heitið fjárfestum því þegar hlutabréf Magma voru skráð, að fyrirtækið muni vaxa hratt og hafi til þessa staðið við þau heit.

Blaðið hefur eftir Greg Reid, sérfræðingi hjá Wellington West Capital Markets í Toronto, að fjárfestum hafi þótt viðskiptaáætlun Magma forvitnileg en þar komi saman græn tækni, vísbendingar um nokkuð stöðugt tekjustreymi og stjórnendur, sem hafi reynslu af námuvinnslu og borunum.

Beaty er enn stjórnarformaður námufélagsins Pan American Silver Corp. Hann hefur stofnað og selt nokkur koparnámufélög á undanförnum þremur áratugum en árið 2007 ákvað hann að nýta reynslu sína af námurekstri og áhuga á umhverfismálum til að byggja upp orkufyrirtæki sem nýtti jarðvarma. 

Hann stofnaði Magma í byrjun síðasta árs og hefur síðan fjárfest í ýmsum verkefnum, þar á meðal Soda Lake orkuverinu í Nevada í Bandaríkjunum.

Globe and Mail hefur eftir Beaty, að hann hafi alltaf stefnt að því að gera Magma að almenningshlutafélagi. Eftir að félagið fór á markað hafi það fært út kvíarnar í Nevada og sé einnig að undirbúa orkuvinnslu í Utah, Oregon, Chile, Perú og Argentínu, auk Íslands.

Í viðtalinu segist Beaty vilja eignast að minnsta kosti 50% af HS Orku. Magma keypti 11% hlut í félaginu í júlí og á mánudag samþykkti Orkuveita Reykjavíkur að selja Magma 32% hlut í félaginu.   

Beaty segir við Globe and Mail, að þótt framleiðsla sé þegar hafin í nokkrum orkuverum í eigu Magma sé enn langt í land. Gert sé ráð fyrir, að handbært fé verði notað til frekari stækkunar á næstunni.

„Ég reikna ekki með því að Magma skili arði á næstunni. Fyrirtækið er á klassísku vaxtarskeiði þar sem það vext mjög hratt... en í fyllingu tímans mun það breytast í stórt og arðbært félag.

Greg Reid segist búast við því, að Magma verði eitt af stóru fyrirtækjunum í jarðvarmavinnslu. Fyrirtækið muni væntanlega halda áfram að kaupa smærri keppinauta. Markmiðið sé, að gengi hlutabréfa fyrirtækisins, sem var 1,50 dalir í hlutafjárútboði í tengslum við skráninguna í sumar, verði orðið 3 dalir eftir ár og 6 dalir eftir nokkur ár þegar fleiri orkuver verða tekin í  notkun.

Hins vegar sé þetta áhætturekstur. „Ef verð á olíu fer á ný niður í 30 dali tunnan mun fólk ekki kæra sig mikið um jarðvarma," segir Reid.  

Ross Beaty, forstjóri Magma Energy.
Ross Beaty, forstjóri Magma Energy.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka