Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir marga erlenda fjárfesta þreifa fyrir sér um fjárfestingu hér á landi og á hann von á að fleiri fylgi í kjölfar Norðmanna sem hyggjast leggja tugi milljarða í íslenska endurreisn.
Morgunblaðið greindi í dag frá áhuga norskra fjárfesta á að setja 20 milljarða íslenskra króna í fjárfestingasjóð sem yrði samvinnuverkefni þeirra og lífeyrissjóðanna.
Gylfi segir þetta góðar fréttir. „Það verður mikil þörf á fjármagni í íslenskt atvinnulíf á næstu árum. Ég á von á að ýmsir utan Íslands sjái sér hag í að fjárfesta hér enda skapar svona umrót ekki bara vandamál, heldur líka tækifæri. Ég býst því við að fleiri fylgi í kjölfarið.“
Hann segist vita að margir þreifi fyrir sér í þessum efnum en hins vegar sé ekkert fast í hendi. „Mér þætti þó skrýtið ef ekkert kæmi út úr því. Íslenskar eignir eru afskaplega ódýrar núna fyrir þá sem eru utan landsteinanna með erlent fé, bæði vegna þess að verð á þeim hefur lækkað í krónum og svo hefur krónan lækkað. Þannig að þetta er eiginlega einstætt tækifæri fyrir þá sem hafa áhuga á að fjárfesta hér.“