Segir AGS standa sig betur hér

Joseph Stiglitz
Joseph Stiglitz

Bandaríski hagfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz   segir að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi gert margt mun betur hér heldur en hann hafi gert annars staðar. Stiglitz þekkir vel til Íslands en árið 2001 varaði hann meðal annars við fasteignabólunni í skýrslu fasteignabólunni í skýrslu sem hann vann fyrir Seðlabanka Íslands. Ýmislegt sem kom fram í skýrslunni hefur nú ræst.

Stiglitz var gestur í Silfri Egils í dag. Hagfræðingurinn er meðal annars  frægur fyrir gagnrýni sína á Alþjóða gjaldeyrissjóðinn sem hann segir að hafi unnið fyrir lánadrottnana í Argentínu ekki argentínsku þjóðina á sínum tíma. Hann hefur einnig gagnrýnt AGS fyrir þær kröfur sem sjóðurinn lagði á ríki Asíu á tíunda áratugnum þegar þau gengu í gegnum alvarlega kreppu.

Hann segir að AGS hafi beitt sér fyrir hlutum á Íslandi sem eru sanngjarnir. Stýrivextir verði að vera háir á meðan staða gjaldmiðils er slæm líkt og staðan sé á Íslandi.

Reiðubúinn til að aðstoða

Stiglitz segist vera reiðubúinn til þess að aðstoða eins og hann getur hér á Íslandi og telur að Ísland hafi að einhverju leyti verið fórnarlamb í þeirri efnahagsniðursveiflu sem reið yfir heiminn. Sökin sé hins vegar að einhverju leyti íslensk þó megin sökin sé hinn frjálsi markaður em reið yfir heiminn. Stiglitz mun eiga fundi með íslenskum ráðamönnum á meðan hann dvelur hér á landi. 

Einn helsti vandinn er sá að enginn veit hver á hvað, segir Stiglitz. Eignirnar eru enn hér og fólkið líka en hver á eignirnar. Stiglitz sagði Íslendinga vera heppna með hvað atvinnuleysið hafi verið lítið hér. Það gæti hins vegar breyst.

Hann segir að það geti verið að AGS hafi lært af fyrri mistökum. En hann hafi áhyggjur af því hversu mikinn þrýsting sjóðurinn setji á að Ísland dragi úr skuldum sem þýði aukið aukið atvinnuleysi. Aðrar aðgerðir, svo sem gjaldeyrishöft, geti einnig leitt til hærri stýrivaxta. 

Skoða verði skuldastöðu almennings

Það verði fyrst og fremst að vinna að því að bæta stöðuna í efnahagsmálum þjóðarinnar og vinna úr því hverjir eigi þær eignir sem óvissa ríkir um í dag. Nota eigi ríkisábyrgð til að fá lán og breytingar þurfi að gera á skuldum einstaklinga með afskriftum. Fólki hafi verið bent á að taka fasteignalán á sínum tíma en nú séu forsendur allt aðrar. Rangt sé að láta hinn almenna borgara greiða fyrir mistök annarra á sama tíma og laun fara lækkandi í landinu. Ekki sé rétt að veita þeim afskriftir á skuldum sem offjárfestu. 

Stiglitz telur að ef við ætlum að halda krónunni þurfi að stilla hana til. Það sé hins vegar erfitt núna meðal annars þar sem það geti þýtt aukið atvinnuleysi og að færri ferðamenn hefðu komið hingað til lands. Það kosti sitt að halda uppi litlum gjaldmiðli. Hann segist hafa stutt það á sínum tíma að Svíar höfnuðu aðild að evrunni og flestir Svíar hafi verið honum sammála. En þeirra gjaldmiðill sé mun stærri heldur en sá íslenski. 

Kreppan ekki búin

Aðspurður segir Stiglitz að hann telji að kreppunni sé ekki lokið í Bandaríkjunum og enn sé ýmislegt ami enn að. Atvinnuleysi sé gríðarlega mikið í ákveðnum aldurshópum og það taki tíma að leysa úr því. 

Það sem fjármálageirinn hafi gert hafi kostað almenning gríðarlega fjármuni og það þurfi að lagfæra ýmislegt í fjármálageiranum svo þetta gerist ekki aftur. Til að mynda óheyrilegir bónusar ofl. 

Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir á upplýsingahagfræði

Joseph Stiglitz er Bandaríkjamaður af gyðingaættum og var í heiminn borinn á því herrans ári 1943. Hann hefur lagt gjörva hönd á margt, unnið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, skrifað alþýðleg fræðirit, meðal annars um hnattvæðinguna, stundað rannsóknir á sviði upplýsingahagfræði o.s.frv. Þær rannsóknir veittu honum Nóbelsverðlaunin árið 2001, að því er fram kom í grein Stefáns Snævarrs í Morgunblaðinu í dag.

Frjáls markaður hafi að forsendu að allir hafi jafnmikla þekkingu, jafn góða yfirsýn yfir alla kosti. En því sé ekki að heilsa í hinum napra veruleika handan frjálshyggjukenninganna hátimbruðu. Þekking markaðsgerenda sé einatt ósamhverf (asymmetrísk), allir eru jafnir en sumir eru jafnari en aðrir þegar markaðsþekking er annars vegar. Yfirleitt eigi „the usual suspects“, þ.e. hinir ríku og voldugu, greiðari aðgang að markaðsþekkingu en sauðsvartur almúginn, það er munur á Jóni og séra Jóni á markaðnum helga.

Þetta er einn meginþátturinn í upplýsingahagfræði Stiglitz en kjarni hennar er nákvæm greining á upplýsingum sem gerendur í efnahagslífi hafi. Þær séu enda burðarás hvers kyns efnahagsstarfsemi.

Skammarstrik AGS

Til að gera illt verra nenni sjóðsmenn ekki að kynna sér sérstakar aðstæður í einstökum ríkjum. Þess séu dæmi að þeir hafi ljósritað skýrslur um land X og yfirfært yfir á land Y án þess að vita neitt um Y. Þessi kreddutrú leiddi til þess að sjóðurinn þvingaði Austur-Asíuríkin til opinbers sparnaðar sem lausn á kreppu áranna rétt fyrir aldamót. En sjóðsmönnum yfirsást sú staðreynd að gróði var á fjárlögum í þessum löndum og að rætur kreppunnar voru ekki hjá ríkinu heldur einkafyrirtækjum. Ábyrgðarlaus einkafyrirtæki höfðu ástundað fjárglæfrastefnu og spekúlasjónir, ekki síst í fasteignum, að sögn Stiglitz (segir orðasambandið „ábyrgðarlaus einkafyrirtæki“ Íslendingum eitthvað?)

Ekki fær stefna sjóðsins í málefnum Rússlands hærri einkunn hjá nóbelsverðlaunahafanum. Hann segir að ráðgjafar sjóðsins hafi skipst í tvær fylkingar, frjálshyggjumenn vildu „sjokkterapíu“, sem þýðir „einkavæðingu strax í gær“. Þeir skynsömu (Krugman og Stiglitz) vildu fara hægar í sakirnar, leggja grundvöll að réttarríki og skapa skattakerfi. Án almennilegra réttar- og skattakerfa virki markaðurinn ekki," að því er fram kom í grein Stefáns í Morgunblaðinu í dag. Hægt er að lesa greinina í heild í blaðinu.

Viðskiptahallinn helsti vandinn

Í skýrslunni sem Stiglitz vann fyrir Seðlabankann kom fram að viðskiptahallinn sé helsti vandi Íslands.

Hér á eftir eru birtir í heild sinni þeir tveir hlutar af samantekt Seðlabankans um meginefni skýrslu Stiglitz sem snúa sérstaklega að Íslandi. Að auki er fjallað um þá tvo hluta sem eru almenns eðlis.

Algeng líkön að ýmsu leyti ófullnægjandi

Efnahagsvandi Íslands

1. Íslenska hagkerfið glímir um þessar mundir við mörg þeirra vandamála sem hrjá lítil og opin hagkerfi sem nýlega hafa afnumið höft á fjármagnshreyfingar. Ísland hefur fylgt stefnu í peninga- og fjármálum sem mætti halda að væri skynsamleg. Samt sem áður hefur viðskiptahalli landsins aukist í 7% af VLF 1998/1999 og fór yfir 10% á árinu 2000. Það virðist vera eindregin skoðun flestra að þessi halli sé ekki sjálfbær. Lykilatriðið er hins vegar ekki hvort viðskiptahallinn er sjálfbær, heldur með hvaða hætti hann leitar jafnvægis. Mun lækkun viðskiptahallans leiða til mikillar lækkunar á genginu? Mun hún leiða til fjármálakreppu? Og mun þessi kreppa hafa langvarandi áhrif á hagkerfið? Lykilatriðið, hvað stefnu stjórnvalda snertir, er hvernig koma má í veg fyrir fjármálakreppu og/eða lágmarka neikvæð áhrif slíkrar kreppu.

2. Hagkerfið hefur á undanförnum árum verið að ganga í gegnum mikla uppsveiflu. Hagvöxtur hefur verið mikill og atvinnuleysi hefur nánast horfið. Þetta er í sjálfu sér jákvætt. Það sem veldur áhyggjum er hins vegar hugsanleg ofhitnun hagkerfisins og hættan á því að ójafnvægið sem myndast við slíka ofhitnun leiði til kreppu.

3. Besta vísbending um ofhitnun hagkerfis er verðbólga. Verðbólga hefur vaxið á Íslandi að undanförnu, en samt ekki jafn mikið og búast mætti við þegar litið er til uppgangsins í hagkerfinu. Verðbólgan ætti hins vegar að lækka á ný þegar verðhækkanir af völdum gengissigs eru gengnar yfir. Þegar verðbólgusaga íslenska hagkerfisins er höfð í huga er ef til vill skiljanlegt að mikil áhersla sé lögð á að ná verðbólgunni niður. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar dregið skaðsemi hóflegrar verðbólgu í efa. Verðbólga virðist hafa lítil sem engin áhrif á hagvöxt, og svo virðist sem vel útfærðar aðgerðir til þess að draga úr verðbólgu séu ekki mjög kostnaðarsamar, þ.e. í samanburði við ábata uppgangstímans.

4. Athygli íslenskra stjórnvalda ætti um þessar mundir að beinast í mun meira mæli að viðskiptahallanum en verðbólgu. Það fer eftir aðstæðum hvort viðskiptahalli er vandamál eða ekki. Ef viðskiptahallinn er notaður til þess að fjármagna fjárfestingu einkaaðila mun arðsemi fjárfestinganna væntanlega nægja til þess að greiða aukinn vaxtakostnað þjóðarbúsins. Viðskiptahalli af þessum toga ætti ekki að hafa nein áhrif að marki á gengi krónunnar. Þegar úr fjárfestingu dregur minnkar einfaldlega viðskiptahallinn án þess að gengisaðlögun þurfi að koma til.

5. Á undanförnum árum hefur verið afgangur af fjárlögum, og þótt raungengi krónunnar hafi hækkað í uppsveiflunni var hækkunin mun minni en á fyrri vaxtarskeiðum. Ef miðað er við meðaltöl fyrri tíðar virðist gengi krónunnar ekki hafa verið of hátt skráð á árinu 2000 og síðan hefur það lækkað verulega. Viðskiptahallinn sem Ísland býr við um þessar mundir virðist því hvorki vera til kominn vegna fjárlagahalla né af of háu gengi krónunnar. Tveir þriðju hlutar af viðskiptahalla áranna 1997-2000 skýrast af minnkandi sparnaði einkaaðila og einn þriðji af aukinni fjárfestingu. Gríðarleg aukning útlána á þessum árum bendir til þess að aukið frelsi í fjármagnsflutningum hafi að verulegu leyti valdið viðskiptahalla undanfarinna ára.

6. En er sú staðreynd að viðskiptahallinn á rætur sínar að rekja til hegðunar einkaaðila til marks um það að ríkið þurfi ekkert að aðhafast vegna hallans? Nei, ekki endilega. Þegar betur er að gáð á ríkið nefnilega meiri þátt í viðskiptahallanum en virðist vera við fyrstu sýn. Að svo miklu leyti sem markaðsaðilar telja gengið vera fast líta þeir á það sem tryggingu sem ýti undir erlendar lántökur. Bankakerfið er að hluta til í eigu ríkisins, og erlendir lánardrottnar hafa tilhneigingu til þess að trúa því að ríkið muni bjarga mikilvægum bönkum ef þeir lenda í vandræðum. Stjórnvöld hafa þar að auki áhrif á væntingar einkaaðila um framtíðartekjur. Þar sem viðskiptahalli er almennt talinn vera áhættuþáttur hvað fjármálakreppur varðar getur mikill viðskiptahalli aukið líkurnar á kreppu þótt hann sé góðkynja, einungis vegna þess að markaðsaðilar hafa ótta af þeirri reynslu að samband sé milli viðskiptahalla og fjármálakreppu."

Almenn sátt um að fastgengisstefna sé óheppileg

Stiglitz tengir vandann frjálsu flæði fjármagns og telur réttlætanlegt að ríkið hafi afskipti af fjármagnsflæði vegna áhrifa þess á flesta í þjóðfélaginu. Hann segir nokkrar gerðir takmarkana fjármagnsflæðis koma til greina, svo sem upplýsingaskylda, skattar, ýmsar gerðir reglna eða bein höft. Eins og annars staðar megi færa rök fyrir því að takmarkanir sem hafi áhrif á verð, svo sem skattar, hafi mikilvæga kosti umfram bein höft.

Þá segir hann almenna sátt vera að komast á um að fastgengisstefna sé óheppileg og að hún gangi vart til lengdar. Hann segir að menn séu ekki enn á eitt sáttir um það hvort eða í hversu miklum mæli seðlabankar eigi að stunda íhlutun á gjaldeyrismarkaði, sú saga sé ekki sérlega glæsileg. Hins vegar sé líklegt að íhlutun geti hentað því betur sem markaðurinn er þynnri.

Stiglitz segir að of mikil áhersla á reglur um eiginfjárhlutfall banka geti haft óæskilgar afleiðingar þegar kreppa ríði yfir. Þess vegna sé mikilvægt að stjórnvöld notist einnig við annars konar reglur, svo sem takmarkanir á hraða útlánaaukningar og takmarkanir á gjaldeyrisáhættu.

Æskileg stefna íslenskra stjórnvalda

1. Umfjöllunina um stefnu stjórnvalda hér að ofan má nú nota til þess að átta sig á æskilegum viðbrögðum íslenskra stjórnvalda um þessar mundir. Viðskiptahallinn er ekki endilega raunverulegt vandamál, en hann veldur hættu á óstöðugleika og því er æskilegt að gripið sé til aðgerða til þess að lækka hann.

2. Fastgengisstefna stjórnvalda sem horfið var frá í mars sl. ýtti undir fjármagnsflæði til landsins og þar með viðskiptahallann því markaðsaðilar vanmátu líkurnar á gengisfellingu. Að auki virðist kenningin um hagkvæm myntsvæði benda til þess að fljótandi gengi henti Íslandi betur en fast gengi. Upptaka verðbólgumarkmiðs og afnám vikmarka krónunnar var því heppileg stefnubreyting.

3. Veiking krónunnar á undanförnum mánuðum ætti að lækka viðskiptahallann, jafnvel þótt hún gangi að hluta til baka og raunlækkunin verði minni vegna aukinnar verðbólgu. Aðgerðir til þess að koma böndum á aukin útlán og til þess að minnka gjaldeyrisáhættu innlendra aðila sem ekki hafa tekjur í erlendri mynt ættu einnig að hjálpa til við að minnka viðskiptahallann. Þessar aðgerðir duga líklega ekki til þess að koma jafnvægi á viðskipti við útlönd. Ekki er skynsamlegt að freista þess að lækka viðskiptahallann með því að auka aðhald í fjármálum. En ýmsar aðrar aðgerðir eru hugsanlegar, svo sem hækkun vörugjalds á varanlegar neysluvörur.

4. Mikilvægustu fyrirbyggjandi aðgerðir sem stjórnvöld geta gripið til eru þær sem minnka sveiflur í flæði fjármagns, s.s. skattar á fjármagnsflutninga, upplýsingaskylda og reglur sem setja bönkum skorður (sjá umfjöllun hér að ofan). Lausafjárkvaðir sem Seðlabankinn setti á árið 1999 höfðu jákvæð áhrif. Stjórnvöld ættu að íhuga víðtækari reglur af sama tagi sem taka tillit til gjaldeyrisáhættu skuldunauta bankanna.

5. Stjórnvöld ættu einnig að setja nýjar reglur um upplýsingaskyldu þeirra sem skulda í erlendri mynt.

6. Takmörk á hraða útlánaaukningar einstakra banka eru ef til vill einnig heppileg, sérstaklega í ljósi þess að hraður vöxtur útlána virðist oft hafa verið ein af meginorsökum fjármálakreppu á síðari árum og að öryggisnet fjármálakerfisins hvetur banka til að taka áhættu að hluta til á kostnað almennings. Slíkar hraðatakmarkanir gætu verið í formi reglna og/eða skatta. Til greina koma hærri eiginfjárkröfur, hærri innborganir í innlánstryggingarkerfi eða meira eftirlit hjá þeim stofnunum sem þenjast út hraðar en tiltekin mörk leyfa.

7. Hækkað lágmark eiginfjárhlutfalls banka er ef til vill einnig heppilegt um þessar mundir. Slík stefna hefur samt ókosti, og því má ekki leggja of mikið upp úr henni. Þar að auki er mikilvægt að hafa það í huga að ef hagkerfið lendir í samdrætti getur ósveigjanlegt lágmark á eigið fé banka haft slæm áhrif."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK