Inngrip Seðlabanka á gjaldeyrismarkaði í ágúst voru þau minnstu í hlutfalli við heildarveltu markaðarins frá mars síðastliðnum. Bankinn varði 6,8 milljónum evra, jafnvirði 1,2 milljörðum króna af gjaldeyrisforðanum í þá viðleitni sína að styðja við gengi krónu í síðasta mánuði samkvæmt yfirliti yfir millibankamarkað með gjaldeyri sem birt var nýverið á heimasíðu hans.
Miðað við stærð hvers inngrips, sem jafnan felst í sölu á 250 þúsund evrum til hvers viðskiptavakanna þriggja, var því um 9 inngrip að ræða í ágúst, samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka. Var það röskur fimmtungur af heildarveltu á millibankamarkaði með gjaldeyri í mánuðinum.
Dugði til að láta veikingu ganga til banka
„Þessi inngrip bankans nægðu til þess að veiking krónu, sem átt hafði sér stað á seinni hluta ágústmánaðar, gekk til baka rétt fyrir mánaðamótin. Það er hins vegar áhyggjuefni að afskipti Seðlabankans skyldi þurfa til að krónan héldi sjó í síðasta mánuði, þegar afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði var væntanlega með mesta móti og vaxtagreiðslur til erlendra aðila í lágmarki," að því er segir í Morgunkorni.