Mikill halli á opinberum rekstri

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið. Reuters

Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, var rekið með 45 milljarða króna tekjuhalla á öðrum fjórðungi ársins samanborið við 0,6 milljarða króna tekjuhalla á sama tíma 2008.

Þetta kemur fram í nýjum Hagtíðindum Hagstofunnar. Sem hlutfall af landsframleiðslu ársfjórðungsins mældist tekjuhallinn 12% og sem hlutfall af tekjum hins opinbera um 30%. Á sama ársfjórðungi 2008 mældist tekjuhallinn 0% af landsframleiðslu og 0,4% af tekjum hins opinbera.

Hagstofan segir, að þennan mikla viðsnúning í fjármálum hins opinbera megi rekja bæði til mikils tekjusamdráttar og mikillar útgjaldaaukningar. Heildartekjur hins opinbera námu 150 milljörðum króna á 2. ársfjórðungi 2009 samanborið við 163 milljarða króna á sama tíma 2008 og lækkuðu um 7,7% milli ára.

Tekjulækkunin skýrist fyrst og fremst af 6,7 milljarða króna minni tekjum af vöru- og þjónustusköttum milli ára og um 5 milljarða króna minni tekjum af tekjusköttum.

Á sama tíma jukust heildarútgjöld hins opinbera um 19% milli ársfjórðunganna eða úr ríflega 163 milljörðum króna 2008 í 195 milljarða króna 2009. Sú mikla útgjaldahækkun skýrist að mestu af 10 milljarða króna aukningu í félagslegum tilfærslum til heimilanna, 10 milljarða króna hækkun í vaxtakostnaði hins opinbera og ríflega 9 milljarða króna vexti í kaupum hins opinbera á vöru og þjónustu.

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1403 milljörðum króna í lok þessa ársfjórðungs eða sem nam 92% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar nam skuld ríkissjóðs 573 milljörðum króna á 2. ársfjórðungi 2008 eða sem svarar 39% af landsframleiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka