Greining Íslandsbanka tekur ekki undir orð Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, sem telur að Ísland muni koma út úr kreppunni á fyrri helmingi næsta árs. Segir í Morgunkorni deildarinnar að lengra sé í það og líklegt sé að að það gerist ekki fyrr en eftir nokkur ár.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í viðtali við Reuters fréttastofuna í gær að Ísland myndi líklega koma út úr kreppunni á fyrri helmingi næsta árs og að hjöðnun verðbólgunnar ásamt minnkandi áhættufælni gæti gert Seðlabankanum kleift að lækka stýrivexti.
Harður vetur framundan
„Nú er ljóst að framundan er erfiður vetur í íslensku efnahagslífi. Líkur eru á því að atvinnuleysi eigi eftir að hækka, kaupmáttur ráðstöfunartekna eigi eftir að rýrna, húsnæðisverð eigi eftir að lækka, verðbólgan eigi eftir að vera nokkur, vextir verði háir og skattar muni verða hækkaðir svo eitthvað sé nefnt. Mikil óvissa er enn um úrlausn margra mikilvægra mála við uppbyggingu efnahagslífsins sem gerir allar tímasetningar í spám um botn kreppunnar afar erfiðar. Miðað hefur áfram í ákveðnum málum en mun hægar en lagt var upp með þegar endurreisnarstarfið hófst eftir hrun bankanna fyrir um ári síðan," að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
Ekki útlit fyrir aukna eftirspurn vegna skuldsetningar heimilanna
Kreppan hefur náð botni þegar vöxtur tekur við af samdrætti í landsframleiðslu á föstu verði. Hagvöxtur er þá kominn til skjala á ný, en ekki er víst að hann verði ýkja mikill fyrr en innlend eftirspurn tekur við sér að nýju.
„Það gerist tæpast með einhverjum krafti m.a. vegna þeirrar miklu skuldsetningar sem einkennir mörg íslensk heimili og fyrirtæki. Hagkerfið á eftir að dragast nokkuð saman áður en við sjáum hagvöxt hér á ný og þegar að því kemur mun fjárhagsleg staða fyrirtækja og heimila að öllum líkindum verða lakari en hún er nú.
Það er alveg ljóst að talsvert lengra er í að efnahagsleg staða þessara aðila verður orðin viðunandi á ný og eitthvað nálægt því sem hún var fyrir banka- og gjaldeyriskreppuna. Ísland mun þannig í hugum flestra ekki koma út úr kreppunni á fyrri helmingi næsta árs þegar atvinnuleysi verður í hámarki, kaupmáttur í lágmarki og erfiðleikar miklir hjá fjölda fyrirtækja og heimila. Það er mun lengra í að Ísland vinni sig að fullu út úr keppunni á þessa mælikvarða. Líklegast er að það gerist ekki fyrr en eftir nokkur ár," segir í Morgunkorni.