Vanefnd varð nýlega á hárri vaxtagreiðslu vegna láns frá Nýja Kaupþingi til 1998 ehf, sem er afar skuldsett félag, en fyrirtækið á 95,7 prósent eignarhlut í Högum, sem er í stöndugum rekstri. Hagar er móðurfélag Bónuss, Hagkaupa o.fl.
Um er að ræða vanefnd sem var það há að lagalega séð var bankinn kominn með heimild til að gjaldfella lán til 1998 ehf., samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Ef Nýja Kaupþing eignast 1998 ehf. eignast bankinn 95,7 prósent hlut í Högum.
Samkomulag við Kaupþing
„Það er samkomulag um 1998,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi 1998 ehf. Hann segir að Nýja Kaupþing hafi ekki fengið heimild til að gjaldfella lán til 1998. „Eins og komið hefur fram erum við í viðræðum um endurskipulagningu á félaginu,“ segir Jón Ásgeir, sem er staddur í New York. Að hans sögn verða engin lán til 1998 ehf. felld niður eða afskrifuð. Hann vísar til þess að félagið verði endurfjármagnað með 16 milljarða króna hlutafjáraukningu. Komið hefur fram að um breskt félag þriggja manna sé að ræða.
Hvaða félag er þetta? „Þetta eru aðilar í breskri smásöluverslun (e. retail). Þessar áætlanir hafa ekkert breyst,“ segir Jón Ásgeir sem sjálfur situr nú í stjórnum Iceland Foods og House of Fraser að beiðni PricewaterhouseCoopers, sem gætir hagsmuna Landsbankans í Bretlandi.
Góður rekstur hjá Högum
Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu hafa starfsmenn fyrirtækjaráðgjafar Nýja Kaupþings verið að fara yfir bókhald Haga en bankinn á mikilla hagsmuna að gæta gagnvart því félagi sem stærsti lánveitandi 1998 ehf. Hagnaður Haga eftir vaxtagjöld var tæplega þrjú hundruð milljónir króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs, samkvæmt heimildum blaðsins. Mikil ánægja er innan Nýja Kaupþings með stjórnendur Haga, þau Finn Árnason og Jóhönnu Waagfjörð.
Í hnotskurn
» Rekstur verslana Haga gengur vel, en verslun hefur verið að færast heim frá útlöndum auk þess sem matvöruverslanir Haga, Bónuss og Hagkaup, eiga trygga viðskiptamenn.
» Langstærsti hluthafi Haga er 1998 ehf. sem er dótturfélag Gaums, en hlutur félagsins er 95,7 prósent.
» Baugur Group seldi í júlí á síðasta ári Haga til 1998 ehf. en kaupandi og seljandi var sami aðili.
» Kröfur í þrotabú Baugs eru 316,6 milljarðar króna.