Tekjuafkoma hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga, var neikvæð um 200 milljarða króna árið 2008, eða 13,6% af landsframleiðslu og 30,6% af tekjum þess. Til samanburðar var tekjuafkoman jákvæð um 5,4% af landsframleiðslu 2007 og 6,3% árið 2006.
Þetta kemur fram í nýjum Hagtíðindum Hagstofunnar. Þar segir, að þessi skarpi viðsnúningur skýrist fyrst og fremst af 192,2 milljarða króna yfirtöku ríkissjóðs á töpuðum kröfum vegna veðlána Seðlabanka Íslands en án hennar var tekjuafkoman neikvæð um 8 milljarða króna eða 0,5% af landsframleiðslu.
Að yfirtökunni undanskilinni jukust útgjöld hins opinbera um 19,6% milli ára á sama tíma og skatttekjur jukust um aðeins 2%.
Tekjuafkoma sveitarfélaga hefur einnig snúist til verri vegar, en á árinu 2008 nam tekjuhalli þeirra 12,9 milljörðum króna eða 0,9% af landsframleiðslu og 6,7% af tekjum þeirra.
Tekjur hins opinbera reyndust 654 milljarðar króna 2008 og hækkuðu um 30 milljarða króna milli ára eða 4,8%, en lækkuðu um 6,4% að raunvirði miðað við verðvísitölu landsframleiðslu. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu þær 44,3% samanborið við 47,9% árið 2007 og hafa því lækkað umtalsvert á þennan mælikvarða.
Útgjöld hins opinbera námu hins vegar 854 milljörðum króna árið 2008 og hækkuðu um 300 milljarða króna milli ára, eða úr 42,5% af landsframleiðslu árið 2007 í 57,8% árið 2008. Að yfirtöku ríkissjóðs á töpuðum kröfum Seðlabankans undanskilinni hækkuðu útgjöld hins opinbera um 6,8% að raunvirði milli ára og námu 44,8% af landsframleiðslu.