„Það er samkomulag um öll helstu efnisatriði og það er bara verið að ganga frá skjalagerð,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, formaður samninganefndar íslenska ríkisins í samningaviðræðum við skilanefndir föllnu bankanna um uppgjörssamning ríkisstjórnarinnar við skilanefnd Glitnis vegna eigna sem færðar voru úr Glitni yfir í Íslandsbanka í kjölfar bankahrunsins.
Keimlíkt samkomulaginu um Kaupþing
Nýlega náðist samkomulag um uppgjörssamning milli Nýja og gamla Kaupþings og að sögn Þorsteins er samkomulagið um Íslandsbanka mjög svipað því í öllum helstu efnisatriðum. Efnisatriði samkomulags skilanefndar Kaupþings og ríkissjóðs hafa ekki verið gerð opinber að öðru leyti en því að kröfuhöfum Kaupþings býðst að eignast allt að 87 prósent í Nýja Kaupþingi.
Að sögn Þorsteins hefur það breyst síðan áætlun um fjármögnun bankanna var kynnt fyrr í sumar að nú er fyrirhugað að erlendir kröfuhafar Íslandsbanka hafi þann valkost að geta eignast allt að 95 prósent hlut í bankanum. Áður var gert ráð fyrir að bankinn yrði alfarið í eigu erlendra kröfuhafa. Þetta þýðir að ríkissjóður mun að lágmarki halda eftir 5 prósent hlut.
Fjármögnun Íslandsbanka var tryggð hinn 14. ágúst sl. en eigið fé bankans verður 65 milljarðar króna sem lagt er fram í formi ríkisskuldabréfa og tryggir bankanum 12% eiginfjárhlutfall.
Lagði ríka áherslu á að ljúka málinu
„Öll ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á það að klára þessa samninga,“ segir Þorsteinn. Meðal ákvæða í samkomulagi ríkissjóðs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er endurreisn fjármálakerfisins á Íslandi. Og eru uppgjörssamningar við skilanefndir föllnu bankanna mikilvægur liður í því.
Japanski bankinn Sumitomo Mitsui, Royal bank of Scotland og þýsku bankarnir HSH Nordbank og DekaBank hafa allir þann valkost að gerast hluthafar í Íslandsbanka áður en þetta ár er úti, en þessir bankar voru meðal stærstu lánveitenda Glitnis.