Fréttaskýring: Sérfræðingahópur Sarkozy vill verga landshamingju

Joseph Stiglitz á tröppum forsetahallarinnar í París í dag ásamt …
Joseph Stiglitz á tröppum forsetahallarinnar í París í dag ásamt Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands. Reuters

Nicolas Sar­kozy og sér­fræðinga­hóp­ur nokk­urra virt­ustu hag­fræðinga heims sögðu í dag að ríki heims þyrftu að finna leiðir til að mæla ham­ingju og vellíðan sam­hliða gróf­um hag­töl­um um vöxt.

Sar­kozy var að taka við skýrslu sem unn­in var á veg­um sér­fræðinga­hóps­ins en í hon­um eru meðal annarra Nó­bels­verðlauna­haf­arn­ir í hag­fræði, Jospeh Stig­litz og Amartya Sen, og for­set­inn sagði við það tæki­færi að Frakk­land ætlaði að hafa frum­kvæði að nýrri aðferðafræði í þessu efni og hvetja aðrar þjóðir að fylgja á eft­ir.

Finna þarf nýja mæli­kv­arða 

Skýrsla sér­fræðing­ana birt­ist þegar mörg hag­kerfi virðast vera að kom­ast upp úr efna­hags­lægðinni þó að at­vinnu­leys­istöl­ur haldi áfram að hækka og neyt­enda­vænt­ing­ar eru of veik­ar til að geta knúið fram al­gjör­an viðsnún­ing.

„Um all­an heim held­ur al­menn­ing­ur að við séum að skrökva að hon­um, að töl­urn­ar sé rang­ar og það sem verra er - að það sé verið að fikta við þær,“ sagði Sar­kozy þegar að hann hvatti til þess að fundn­ir yrðu nýir mæli­kv­arðar fyr­ir efna­hagsþró­un­ina.

„Frakk­land mun berj­ast fyr­ir því að öll alþjóðasam­tök muni end­ur­bæta töl­fræðileg­ar aðferðir. Frakk­land mun jafn­framt hvetja evr­ópsk sam­starfs­ríki að ganga fram fyr­ir skjöldu í þessu efni og end­ur­bæta þess vegna okk­ar eig­in kerfi,“ sagði for­set­inn enn­frem­ur.

Sam­fé­lag er flókið fyr­ir­bæri

Í fe­brú­ar á síðasta ári óskaði Sar­kozy eft­ir því að Stig­litz ásamt um 20 öðrum sér­fræðing­um tækju að sér að finna nýj­ar leiðir til að mæla hag­vöxt með því að taka einnig til­lit til fé­lags­legr­ar vellíðan.

„Það er eng­in ein tala sem nær utan um jafn flókið fyr­ir­bæri og sam­fé­lag okk­ar,“ seg­ir Stig­litz í sam­tali við AFP-frétta­stof­una í til­efni af birt­ingu skýrsl­unn­ar í dag. „Það sem við horf­um til er þörf­in á vand­lega völd­um töl­um með betri skiln­ingi á hlut­verki hvers þess­ara talna fyr­ir sig.“

Núna er efna­hags­leg­ur vöxt­ur mæld­ur í pró­sentu­hækk­un­um - eða lækk­un­um á lands­fram­leiðslu, sem mæl­ir virði þeirra vara og þjón­ustu sem verða til í hverju landi og hef­ur löng­um verið tal­in af mörg­um nokkuð gróf­ur mæli­kv­arði.

Lands­fram­leiðslan ein og sér geti verið mis­vís­andi varðandi lífs­gæði, seg­ir í skýrsl­unni, t.d. í því til­felli að aukn­ing eldsneyt­isneyslu geti gefið mynd af aukn­um vexti á sama tíma og það end­ur­speglaði fyrst og fremst óhagræði um­ferðaröngþveit­is og meng­un.

„Lands­fram­leiðslan var upp­haf­lega búin til að mæla efna­hags­um­svif­in en hef­ur í aukn­um mæli verið notuð til að mæla fé­lags­lega vellíðan. Hún var ekki búin til fyr­ir slíkt og mæl­ir ekki slíkt,“ seg­ir Stig­litz enn­frem­ur.

Auðlegð Banda­ríkja­manna í rúst

Hag­fræðing­arn­ir segja að í aðdrag­anda láns­fjár­hruns­ins á síðasta ári, þá hafi mörg ríki freistað þess að fylgja vaxt­ar­líkan­inu banda­ríska vegna þess að hafi hafi boðið upp á álit­lega aukn­ingu lands­fram­leiðslu fyr­ir Banda­rík­in. 

„Jafn­vel þótt fjár­mála­geir­inn hefði virkað full­kom­lega, þá er vand­inn að auðlegð Banda­ríkja­manna er í rúst, hef­ur orðið fyr­ir þungu höggi,“ seg­ir Stig­litz. „Auður flestra Banda­ríkja­manna er fólg­in í fast­eign­um þeirra, hús­un­um, og hon­um hef­ur nán­ast verið tor­tímt, að minnsta kosti fyr­ir stór­an hluta Banda­ríkja­manna.“

Hefðu rík­in ein­beitt sér frem­ur að áætl­un­um um að auka miðlungs­laun heim­il­anna, hefðu þau vænt­an­lega varið sig bet­ur gegn krepp­unni og aukið al­menna vel­meg­un íbú­anna.

Einna fyrst­ur til að fagna skýrsl­unni var Ang­el Gurria, aðal­fram­kvæmda­stjóri OECD, efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar, og sagði stofn­un sína til að leggja því lið að móta nýja gerð hag­vísa. „ Efna­hags­mál eru ekki það sem skipt­ir öllu máli í lífi fólks“, seg­ir hann. „Við þurf­um betri mæli­kv­arða um vænt­ing­ar fólks og ánægju­stig, um það hvernig það lif­ir líf­inu ... við þurf­um að breikka þetta eigna­svið sem við telj­um skipta máli til að bera uppi vellíðan okk­ar.“

Nýtt kerfi mæli lands­ham­ingju

Í skýrsl­unni er lagt til að lands­fram­leiðslan verði ein­göngu notuð til að mæla efna­hags­um­svif­in og að nýtt kerfi taki til um­hverf­is, heilsu, ör­ygg­is og mennt­un­ar, eða það sem kallað hef­ur verið í sér­fræðinga­hópn­um Verg lands­ham­ingja.

Rík­in eiga að birta árs­skýrsl­ur, rétt eins og fyr­ir­tæk­in gera, og töl­urn­ar sem fram koma eiga að að mæla kaup­getu heim­il­anna og jafn­ræði milli kynja, ald­urs­hópa og stétta.

Þessi gögn eiga að vera þannig sett fram að stjórn­mála­menn og stjórn­sýsl­an geti notað þau til að meta „vellíðan“ íbú­anna og gert áætlan­ir til að bæta hana.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK