Greining Íslandsbanka reiknar með því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans 24. september nk.
Í yfirlýsingu nefndarinnar sem birt var á síðasta vaxtaákvörðunardegi bankans 13. ágúst síðastliðinn segir að sterkari króna sé forsenda áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds. Gengi krónunnar hefur verið stöðugt frá síðustu vaxtaákvörðun og mun nefndin ekki gera neitt til að raska þeim stöðugleika. Nefndin vill, ef eitthvað er, sjá krónuna verðmeiri.
„Peningalegt aðhald hefur hins vegar aukist aðeins en verðbólgan hefur lækkað úr 11,3% í 10,9% frá síðasta vaxtaákvörðunardegi bankans og raunstýrivextir bankans þannig hækkað ef miðað er við liðna verðbólgu. Stýrivextir bankans eru nú 12%.
Vextir á viðskiptareikningum fjármálafyrirtækja í Seðlabankanum eru hins vegar 9,5% en það eru í raun þeir vextir sem mestu máli skipta um aðhald peningastefnunnar nú vegna þess hve mikið laust fé er í umferð. Innlánsstofnanir hafa undanfarið verið að lækka innlánsvexti sína nokkuð hratt og eru þeir komnir umtalsvert undir innlánsvexti Seðlabankans. Engu að síður hafa innlán verið vaxandi enda kostir til ávöxtunar fáir nú í miðri fjármálakreppunni fyrir innlenda sparifjáreigendur sem eru með eignir sínar í krónum og uppi eru gjaldeyrishöft.
Lækkun innlánsstofnanna á innlánsvöxtum hefur dregið úr
ábata af krónueignum og þar með þeirri stoð sem háir innlánsvextir
seðlabankans eiga að vera fyrir gengi krónunnar. Aðhald
peningastefnunnar hefur því minnkað hvað þetta varðar, enda voru
viðraðar hugmyndir um hækkun innlánsvaxta á síðasta
vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndarinnar," að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
Í ljósi áforma um afnám gjaldeyrishafta og væntanlegrar efnahagsþróunar reiknar Greing Íslandsbanka með því að nefndin muni halda stýrivöxtum Seðlabankans óbreyttum fram á 2. fjórðung næsta árs.
„ Afnám gjaldeyrishafta og væntanleg þróun krónunnar mun að okkar mati kalla á óbreytta stýrivexti fram að þeim tíma. Ekki er hægt að útiloka að nefndin ákveði að hækka vexti bankans á þessum tíma. Peningastefnunefndin segir í yfirlýsingu sinni að Seðlabankinn geti aukið tiltrú á efnahagslífið, sem er forsenda þess að gjaldeyrishöft verði afnumin. Til vaxtahækkana getur komið af þessum sökum ef aðstæður kalla á slíkt að sögn nefndarinnar."
Að því tilskyldu að framvindan í áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda verði líkt og að er stefnt ættu að skapast forsendur fyrir hækkun krónunnar á næsta ári og að samhliða þeirri þróun verði slakað á aðhaldinu í peningamálum, samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.
„Spáum við því að stýrivextir bankans verði komnir í 7,5% í lok næsta árs og verði því 4,5 prósentustigum lægri en þeir eru nú. Um mitt ár 2011 verða stýrivextir Seðlabankans komnir niður í 6% að okkar mati."