„Þið settuð Ísland á hausinn“

mbl.is

„Þið settuð Ísland á hausinn,“ sagði Nassim Taleb, höfundur bókarinnar The Black Swan, á ráðstefnu viðskiptafólks í Toronto í Kanada nýverið. Þar sakaði Taleb m.a. fyrirtæki í fjarskiptaiðnaði um að eiga þátt í hruninu.

„Ontario setti heiminn á annan endann,“ sagði Taleb jafnframt og veifaði BlackBerry snjall-símanum sínum, sem fyrirtækið Research In Motion smíðaði, en fyrirtækið er staðsett í Waterloo í Ontario-fylki. 

Bókin The Black Swan, sem kom út árið 2007 og naut mikilla vinsælda, fjallar m.a. um óvissu og áhrif hins ófyrirséða, m.a. í tengslum við bankahrunið. Hann bendir á að í gegnum söguna gerist atburðir sem hafi stórkostlegar afleiðingar á framvinduna. Þetta sé sjaldgæft en gerist endrum og eins í aldanna rás. 

Hann sagði að áður fyrr hefði bankaáhlaup tekið sinn tíma. Fólk hefði þurft að keyra eða ganga út í bankann og bíða svo þar í röð eftir gjaldkeranum til að geta tekið út aurana sína. „Nú getur áhlaup átt sér stað á nokkrum sekúndum með því að nota netið og farsíma sem bjóða upp á möguleika netsins, eins og BlackBerry,“ sagði hann.

„Á örskotsstund heyrir Ísland sögunni til,“ sagði Taleb. 

Fram kemur á vef Bloomberg að Taleb hefði gagnrýnt Barack Obama Bandaríkjaforseta fyrir seinagang í því að útnefnda ráðgjafa og eftirlitsaðila sem skilji flókin fjármálakerfi.

„Ég vil fá atkvæðið mitt til baka,“ sagði Taleb, sem kaus Obama í forsetakosningunum.

Hann sagði að skuldir Bandaríkjanna væru þreföld verg þjóðarframleiðsla, sem væri svipað og hefði verið á níunda áratugnum. Hann sagði að ofsatrú manna í heiminum ætti stóran þátt í bankahruninu. Hann sagði jafnframt að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefði lagt sín lóð á vogarskálarnar hvað þetta varðaði.

„Bernanke hélt að kerfið væri að ná stöðugleika,“ sagði Taleb og bætti við að þetta hefði verið rétt fyrir hrunið í fyrra.

Hann sagði að skuldir væru beinn mælikvarði á ofsatrú. Samkvæmt bandarísku skuldaklukkunni skuldar almenningur nú um 11,8 billjónir dala.

Taleb sagði að þjóðin verði að draga úr skuldsetningu og forðast þá siðferðislegu synd að færa skuldir einkafyrirtækja yfir á almenning.

„Þetta er það sem ég hef áhyggjur af,“ sagði Taleb. Enginn hafi hins vegar haft kjark til að segja að fólk verði horfast í augu við veruleikann.

Nassim Taleb.
Nassim Taleb.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka