Útistandandi skuldir Bakkavarar við íslenska lánardrottna nema rúmum 25 milljörðum króna. Á meðal kröfuhafa eru lífeyrissjóðir sem eiga skuldabréf Bakkavarar sem átti að greiða í maí s.l.
Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar, sagði við fréttastofu RÚV og Morgunblaðið í gær að sú aðgerð að selja 39,62% hlut Exista í Bakkavör til félags í sinni eigu og bróður síns hafi verið til þess að fyrirbyggja að lánasamningar Bakkavarar yrðu gjaldfelldir. Það myndi þýða að rekstrarfélög Bakkavarar færðust í faðm erlendra kröfuhafa félagsins. Móðurfélag Bakkavarar yrði skilið eftir og íslenskir kröfuhafar fengju ekkert upp í sínar kröfur. Þar er m.a. um að ræða Lífeyrissjóðinn Gildi og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
Að sögn Ágústs eru ákvæði í lánasamningum Bakkavarar við erlenda lánardrottna um að Exista þurfi að eiga að lágmarki 30% í Bakkavör eða að hlutafélag í eigu Ágústs og bróður hans Lýðs þurfi að eiga a.m.k 30% í Bakkavör.
Með sölu á Bakkavör til félags í sinni eigu hafa bræðurnir tryggt sína hagsmuni. Ekki má skilja orð Ágústs öðruvísi en svo að þetta hafi verið nauðsynleg aðgerð til að vernda hagsmuni innlendra kröfuhafa. Hins vegar er í reynd fólgin dulbúin hótun í orðum hans til innlendra kröfuhafa um að þeir verði að fara að vilja hans og bróður hans Lýðs, ella tapi þeir kröfum sínum. Samkvæmt þessu var aldrei í inni í myndinni að innlendir kröfuhafar Bakkavarar tækju yfir stjórn félagsins, þrátt fyrir að eiga 25 milljarða króna kröfu á móðurfélagið.