Du Jun, sem var framkvæmdastjóri í Asíudeild Morgan Stanley, er talinn hafa nýtt sér innherjaupplýsingar í viðskiptum með bréf kínverska fyrirtækisins CITIC Resources.
Fjármálaeftirlit Hong Kong segir, að Du Jun hafi verið í hópi ráðgjafa Morgan Stanley, sem veitti CITIC Resources ráðgjöf varðandi skuldabréfaútboð til að fjármagna kaup á olíulind í Kasakstan.
Var Du sakfelldur fyrir að hafa í tíu skipti keypt hlutabréf í CITIC Resourses fyrir 87 milljónir Hong Kong dala, 1.387 milljónir íslenskra króna, áður en fyrirtækið tilkynnti í maí 2007 að það myndi kaupa olíulindina og aðra olíulind í Kína.
Hlutabréf CITIC hækkuðu um nærri 14% frá því Du keypti bréfin og þar til tilkynning fyrirtækisins birtist.
Sagði dómarinn, Andrew Chan, í morgun er hann kvað upp dóminn að aldrei áður hafi viðlíka mál komið upp og það stærsta sem hann hafi sjálfur kynnst.