Þorgeir Eyjólfsson, sem um árabil var forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri eignastýringar við MP Banka. Undir Þorgeir munu heyra eignastýring, einkabankaþjónusta og MP sjóðir.
Þetta var meðal annars kynnt á starfsmannafundi hjá MP Banka síðdegis.
Þorgeir sagði stöðu sinni sem forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna lausri í maí s.l. eftir 30 ára starf hjá sjóðnum. Hann hefur frá þeim tíma unnið að undirbúningi að stofnun Fjárfestingasjóðs Íslands sem er samstarfsverkefni lífeyrissjóðanna við að koma að uppbyggingu og endurreisn íslensks atvinnulífs en stefnt er að stofnfundi fjárfestingasjóðsins í október n.k.
Þorgeir var um árabil formaður Landssambands lífeyrissjóða, varð stjórnarformaður Þróunarfélags Íslands við einkavæðingu þess, átti sæti í mörg ár í stjórn Flugleiða og fór fyrir hópi lífeyrissjóða sem fjármögnuðu Hvalfjarðargöngin. Þorgeir á sæti í stjórn Nasdaq Omx Nordic sem fer með rekstur kauphallanna í Helsinki, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Reykjavík ásamt kauphöllunum í Eystrasaltsríkjunum þremur.