Þótt kaupmáttur launa hafi lækkað um 6,6% á þessu ári hafa laun hækkað um 9% umfram verðlagshækkanir frá árinu 2000 eða síðustu 9 ár.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Segir hagfræðideild bankans, að ljóst sé að kaupmáttur launa muni dragast talsvert saman á þessu ári. Það sem af er árinu hefur hann lækkað um 6,6% hafi lækkað um tæp fjögur prósent árið 2008.
Landsbankinn spáir því, að vísitala neysluverðs hækki um 0,8% í september en Hagstofan mun birta tölur um það á mánudag. Launahækkanir séu fátíðar um þessar mundir og megi búast við að kaupmáttur dragist enn saman í september. Hins vegar komi launahækkanir vegna samkomulags ASÍ og SA til framkvæmda í nóvember en þá er ekki von á verðhækkunum. Því er að mati Landsbankans útlit fyrir að kaupmáttur aukist lítillega í þeim mánuði.