Fjármálaeftirlitið hefur samþykkt að Byr sparisjóður verði
vörsluaðili viðbótarlífeyrissparnaðar fyrrum viðskiptavina SPRON og nb.is. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Byr sparisjóði.
Sparnaðurinn færist sjálfkrafa til Byrs, viðskiptavinum að kostnaðarlausu, hálfum ánuði eftir að þeim berst kynningarbréf þess efnis. Bréfin verða sent út næstu daga. Þá segir í tilkynningunni:
„Samkvæmt samningi við slitastjórn SPRON og nb.is mun Byr annast ávöxtun á verðtryggðum sparnaði ásamt þjónustu við viðskiptavini en Íslensk verðbréf (ÍV) munu sjá um stýringu á verðbréfatengdum eignum.
Slitastjórnin gekk til samninga við Byr og ÍV að undangengnu útboði. Félagið Íslensk verðbréf var stofnað árið 1987 og sérhæfir það sig í eignastýringu fyrir fjárfesta, stóra og smáa. Lífeyrissjóðir eru meðal stærstu viðskiptavina en heildareignir í stýringu hjá ÍV nema nú um 90 milljörðum króna.
Eins og áður sagði mun viðbótarlífeyrissparnaður SPRON og nb.is færast sjálfkrafa til Byrs tveimur vikum eftir að viðskiptavinum berst
kynningarbréf þess efnis nema þeir óski annars.
Eigendur viðbótarlífeyrissparnaðar SPRON og nb.is geta nú fengið alla
þjónustu vegna sparnaðar síns í heimabanka Byrs. Þeir sem ekki hafa haft aðgang geta nálgast notandanafn og lykilorð í heimabanka undir rafrænum skjölum. Þá veita þjónustufulltrúar útibúa sparisjóðsins allar frekari upplýsingar.