Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Nýja Landsbankans (NBI) sagði á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva að það væri óvissa um fiskveiðistjórnunarkerfið sem leiddi til þess að erfitt væri að fá nýtt fé inn í sjávarútvegsfyrirtæki.
Landsbankinn hefur skipt sjávarútvegsfyrirtækjum í þrjá flokka eftir því hver staða þeirra sé. Græn fyrirtæki eru fyrirtæki sem eru í lagi og eru 46 prósent sjávarútvegsfyrirtækja í þeim flokki. Gul fyrirtæki eru fyrirtæki sem eru í nokkuð góðum málum en þurfa á úrræðum að halda, en 27 prósent sjávarútvegsfyrirtækja eru gul að mati bankans. Þriðji flokkurinn nær yfir sjávarútvegsfyrirtæki sem eru í rekstrarvandræðum. 27 prósent sjávarútvegsfyrirtækja eru að mati Landsbankans í miklum vandræðum. Sum þeirra geta ekki starfað undir óbreyttu eignarhaldi.
Ásmundur sagði að kaup á kvóta á skipum væri í 54 prósent tilfella ástæða vanda sjávarútvegsfyrirtækja. Með öðrum orðum væri vandi þeirra ekki til kominn af rekstrinum sjálfum. Ásmundur sagði að hlutabréfakaup væri í 28 prósent tilfella ástæða rekstrarvanda og kaup á afleiðum í 15 prósent tilfella.